Aukinn órói fór að mælast um hádegi á Torfajökulssvæðinu og kemur hann í bylgjum, að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings Veðurstofunnar.
„Gróf staðsetning er 15 kílómetrar vestnorðvestur af Torfajökli. Við erum að skoða þetta frekar með öðrum sérfræðingum,“ segir Elísabet í samtali við mbl.is.
Hún segir skjálfta hafa verið á þessu svæði síðustu daga, sem hefur kannski ekki farið mjög hátt sökum jarðskjálfta annars staðar á landinu.
Elísabet segist telja líklegt að óróinn tengist jarðhita á svæðinu og vonar hún að minnsta kosti að gos sé ekki í vændum.
„Við þurfum alltaf að taka óróa svolítið alvarlega.“