Tæplega 140 milljónir söfnuðust til byggingar nýs Kvennaathvarfs með átakinu Á allra vörum.
Í gærkvöldi fór fram söfnunarþáttur á RÚV og segir í tilkynningu að upphæðin hafi safnast bæði með frjálsum framlögum og sölu á Á allra vörum-varasettunum.
„Við erum í skýjunum með árangurinn. Þetta þýðir að við höfum tryggt það að nýtt Kvennaathvarf mun rísa og það á réttum tíma,” er haft eftir Elísabetu Sveinsdóttur, einni af skipuleggjendum átaksins.
Elísabet, auk Gróu Ásgeirsdóttur og Guðnýju Pálsdóttur, koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í átakinu og lögðu hönd á plóg með einum eða öðrum hætti.
„Við hefðum ekki verið á allra vörum án stuðnings bakhjarlanna okkar, sjálfboðaliðanna, vina og vandamanna. Það er með ólíkindum að upplifa kraftinn og gleðina sem ríkti í allri herferðinni,” er haft eftir Gróu en um 200 til 300 manns komu að átakinu.
„Þegar allir leggjast á eitt verða töfrar til. Við eigum ekki til eitt nægilega sterk orð til að lýsa þakklæti okkar,“ er haft eftir Guðnýju.
Söfnunarnúmerin verða opin til 8. apríl og því er enn hægt að leggja málefninu lið með því að hringja í eftirfarandi númer:
9071504 fyrir 4.000 kr.
9071506 fyrir 6.000 kr.
9071508 fyrir 8.000 kr.
9071510 fyrir 10.000 kr.