Í bókasafni í Brno í Tékklandi, heimabæ rithöfundarins Milans Kundera, hefur verið komið á fót sérstakri deild með bókum og ljósmyndum úr eigu rithöfundarins og ráðgert er að koma listaverkasafni hans einnig þar fyrir.
Enn fremur hefur verið stofnuð þar menningarmiðstöð sem ber nafn Kundera þar sem meðal annars verður boðið upp á viðburði sem tengjast evrópskum bókmenntum og menningu. Friðrik Rafnsson hefur þýtt allar bækur Kundera á íslensku en hann skoðaði safnið í byrjun mars síðastliðins og hélt fyrirlestur um áhuga Kundera á íslenskri menningu, sögu og tungu og hvernig hann birtist í nokkrum bóka hans.
Kundera lést fyrir rúmum þremur árum, 94 ára að aldri, og eiginkona hans, Vera, lést á síðasta ári. „Milan átti tugi þúsunda bóka, meðal annars allar þýðingar á verkum sínum. Hann átti einnig gott málverkasafn og sjálfur teiknaði hann nokkuð.
Tékkneska landsbókasafnið hefur höfuðstöðvar í Prag og er með stórt útibú í Brno sem er fæðingarborg Kundera og önnur stærsta borgin í Tékklandi. Tekinn var frá talsverður hluti af safninu í Brno sem er hugsaður sem bóka- og ljósmyndasafn, heimildaskrá og gagnagrunnur um Kundera, ævi hans og verk. Listaverkin sem hjónin áttu, meðal annars verk eftir íslenska listmálarann Kristján Davíðsson, verða sömuleiðis geymd þarna og teikningar eftir Kundera verða til sýnis, en hann var ágætlega drátthagur og hafa sumar teikninganna verið notaðar á kápur bóka hans víða um heim, meðal annars hérlendis,“ segir Friðrik.
Hann segir að verið sé að marka stefnu varðandi menningarstarfsemi í safninu.
„Ætlunin er að vera þarna með reglulega viðburði um evrópska menningu, aðallega bókmenntir, einkum skáldsöguna sem var líf og yndi Milans, og fá gesti héðan og þaðan úr heiminum til að fjalla um það efni.“
Í byrjun mars tók Friðrik ásamt bókaútgefandanum Jakobi F. Ásgeirssyni þátt í dagskrá í safninu í Brno þar sem þeir ræddu um Kundera á Íslandi, útgáfusögu bóka hans og móttökur og umfjöllun um bækur hans hér á landi. Jakob hefur gefið út allnokkur verk Kundera í þýðingu Friðriks hjá bókaforlagi sínu Uglu.
„Áður en Kundera kom fyrst hingað til lands árið 1992 kom Ísland fyrir á nokkrum stöðum í bókum hans og enn meira eftir það og ég ræddi um það á þessum viðburði,“ segir Friðrik.
„Þetta var mjög notaleg stund. Búist hafði verið við tuttugu manns en það mættu hátt í hundrað manns, þetta átti að vera klukkutíma dagskrá en varð tveir tímar. Það var greinilega mikill áhugi á Milan en efnið þótti líka forvitnilegt.“
Einn angi af verkefninu í Brno er að erlendir listamenn, þar á meðal íslenskir, geti dvalið í borginni í ákveðinn tíma og listamenn þaðan geti komið hingað til lands og dvalið í húsum sem Rithöfundasamband Íslands hefur umsjón með, til dæmis í Gunnarshúsi eða Gröndalshúsi.
„Ég vonast líka til að forstöðumaður safnsins, Tomas Kubicek, komi hingað til landsins og kynni starfsemina og segi frá þessari arfleifð og samstarfinu við Ísland, Frakkland og Taívan. Áhugi Taívanbúa á bókum Kunderaferr ört vaxand,i kannski vegna þess að þeir eiga nokkuð ógnvænlegan nágranna, Kína, sem virðist vera að sýna tennurnar um þessar mundir. Þannig er staða þeirra að mörgu leyti hliðstæð stöðu Tékka og annarra smáþjóða í Mið-Evrópu og því sækja þeir í verk Kundera til að skilja hana betur. En skáldsögur Kundera eru fyrst og fremst tímalaus listaverk sem glíma við síbreytilegar kringumstæður mannsins í flóknum, hverfulum en líka vonandi fallegum heimi.
Ég er búinn að fara tvisvar til Brno sem er geysifalleg borg, ekki síður en höfuðborgin Prag sem margir Íslendingar þekkja, og það er gaman að sjá hversu mikill metnaður er lagður í að halda hans nafni á lofti. Nú stendur til dæmis yfir samkeppni um minnismerki sem reist verður á gröf þeirra Kundera-hjónanna,“ segir Friðrik.
Ítarlegri umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og í nýju Moggaappi.