Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar á komandi landsfundi flokksins.
Frá þessu greinir hún á Facebook.
Katrín var kosningastjóri Samfylkingarinnar í þingkosningunum í haust.
„Ég er afar stolt af árangri míns fólks í síðustu þingkosningum og enn stoltari af verkglöðum fulltrúum okkar í ríkisstjórn og á þingi,“ skrifar Katrín.
Hún var þingmaður Samfylkingarinnar á árunum 2003-2016, iðnaðarráðherra árin 2009–2012 og fjármála- og efnahagsráðherra árin 2012–2013.
Katrín segir að það sé verk að vinna við að styrkja flokksstofnanir Samfylkingarinnar enn frekar og að efla grasrótina á sama tíma og stutt er við kjörna fulltrúa flokksins.
„Ég ætla ekki að lofa því að ég muni flytja fjöll, hljóti ég kosningu, en ég lofa því að ég muni gera mitt allra besta,“ skrifar hún.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, verður ein í framboði til formanns Samfylkingarinnar en landsfundurinn fer fram í Stúdíó Fossaleyni í Grafarvogi dagana 11. og 12. apríl.
Þá hefur Guðmundur Árni Stefánsson gefið kost á sér til áframhaldandi setu sem varaformaður Samfylkingarinnar.
Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og forseti bæjarstjórnar, hefur tilkynnt um framboð í embætti ritara Samfylkingarinnar.