Lundinn er snúinn aftur til landsins en sést hefur til fuglsins í Grímsey, á Borgarfirði eystra, Tjörnesi og í Reynisfjöru svo dæmi séu nefnd.
Lundinn snýr iðulega til Íslands upp úr mánaðamótunum mars-apríl og mætti því segja að hann væri á réttum tíma í ár.
„Þetta er allt samkvæmt hefðinni,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og nefnir að fyrstu fregnir af sjófuglinum hafi borist frá Grímsey 1. apríl.
„Þeir eru úti á miðju Atlantshafi á veturna. Þeir eru suður af Grænlandi og austur af Nýfundnalandi. Svo fara þeir stundum á hafsvæðið á milli Kanada og Grænlands. Á þessum slóðum er mjög mikið æti. Þar er mikið af sjófuglum sem koma héðan og jafnvel frá Suður-Íshafinu.“
Austurfrétt greindi frá því í gær að allnokkur fjöldi lunda hefði sést á Borgarfirði en þeirra varð fyrst vart seint í síðustu viku. Hann hefur þó ekki enn sest að í Hafnarhólmanum.
Þá hefur mbl.is einnig upplýsingar um að sést hafi til fuglsins í Mýrdalnum á Suðurlandi.
„Lundinn er yfirleitt fyrr á ferðinni á Norður- og Austurlandi,“ segir Jóhann Óli sem kveðst þó ekki hafa séð lunda sjálfur í ár enda hafi hann ekki verið á þeim slóðum undanfarna daga þar sem fuglinn heldur til.