Adolf verður í fimmta sæti í Norðvesturkjördæmi

Frá fundinum í Búðardal.
Frá fundinum í Búðardal.

Adolf H. Berndsen, framkvæmdastjóri á Skagaströnd og varaþingmaður, verður í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi við komandi þingkosningar. Tillaga kjörnefndar þess efnis var samþykkt á fundi kjördæmisráðs í Búðardal, sem lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Ekki kom til atkvæðagreiðslu heldur handauppréttingu.

Áður hafði verið felld tillaga um að Jóhanna Pálmadóttir, bóndi á Akri í A-Húnavatnssýslu, skipaði 5. sætið og Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi á Ísafirði, það sjötta. Alls greiddu 134 atkvæði um þá tillögu. 52 sögðu já en 81 nei, einn seðill var ógildur.

Umræður á fundinum urðu langar og strangar. Fram komu fleiri breytingartillögur, m.a. um að færa alla á listanum upp um eitt sæti sem lentu fyrir neðan 5. sæti í prófkjörinu, en þær voru dregnar til baka. Jóhanna Pálmadóttir samþykkti á endanum að taka 6. sætið, eins og tillaga kjörnefndar gerði ráð fyrir, og Birna Lárusdóttir verður í 7. sæti. Áður höfðu í prófkjörinu í nóvember sl. tryggt sér fjögur efstu sætin þeir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og þingmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson og Guðjón Guðmundsson.

Framboðslistinn er þannig:


1. Sturla Böðvarsson
2. Einar Kr. Guðfinnsson
3. Einar Oddur Kristjánsson
4. Guðjón Guðmundsson
5. Adolf H. Berndsen
6. Jónhanna E. Pálmadóttir
7. Birna Lárusdóttir
8. Katrín M. Andrésdóttir
9. Helga Halldórsdóttir
10. Gauti Jóhannesson
11. Guðný Helga Björnsdóttir
12. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir
13. Sjöldur Orri Skjaldarson
14. Ásdís Guðmundsdóttir
15. Snorri Sigurðsson
16. Jón Stefánsson
17. Eydís Aðalbjörnsdóttir
18. Örvar Marteinsson
19. Vilhjálmur Árnason
20. Engilbert Ingvarsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert