Sjálfstæðismenn vilja skoða framleiðslu sólarrafhlaðna til þess að tryggja ný störf.
Tryggja þarf að allt að tuttugu þúsund ný störf myndist á næsta kjörtímabili, segir í stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Í ályktuninni segir að til þess að skapa þessi störf þurfi að skapa sátt um einstaka virkjanarkosti þótt áréttað sé að tími risavaxinna virkjana eins og Kárahnjúkavirkjunar sé liðinn. Sjálfstæðismenn vilja skoða lagningu rafstrengs inn á sameiginlegt orkukerfi Evrópu, koltrefjaverksmiðju, álþynnuverksmiðju og framleiðslu á sólarrafhlöðum.
Í ályktuninni segir jafnframt að ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn búi yfir miklum möguleikum nú þegar raungengið er jafn lágt og raun ber vitni.
Sjálfstæðismenn segja að ljúka þurfi endurskipulagningu bankakerfisins í heild sinni í sumar. Leggja þeir áherslu á að semja við erlenda kröfuhafa og eigendur jöklabréfa.
Þá segja sjálfstæðismenn brýnt við skipulagningu bankakerfisins að þegar lausafé verði aðgengilegt á ný að framkalla ekki kapphlaup Íbúðalánasjóðs og bankanna um að veita afar áhættusöm lán til íbúðakaupa, sem var ein af helstu undirrótum skuldsetningar heimilanna.
Þá kveður við kunnuglegan tón þar sem sjálfstæðismenn hafna almennt öllum nýjum sköttum á atvinnulífið. Segja þeir að slíkt komi til með að draga úr þrótti.