Nú er nauðsynlegt, sem aldrei fyrr, að efla allar rannsóknir á sviði sjávarútvegsmála. Það er ein af grunnforsendunum í því endurreisnarstarfi sem framundan er, segir í drögum að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um sjávarútvegsmál.
Flokkurinn ályktar að auka þurfi rannsóknir á sviði fiski- og hafrannsókna en líka þurfi að hlúa að og stórauka rannsóknir innan sjávarútvegsins s.s. á sviði stjórnunar, virðisaukamyndunar og markaðssetningar.
Greið samskipti kaupenda og seljenda sjávarafla séu mikilvæg til þess að tryggja að aflanum sé ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt. Fagnað er þeirri lagabreytingu frá 1. febrúar sem bætir aðgengi fiskkaupenda að afla sem fyrirhugað er að flytja á erlendan markað.
„Þegar þjóðin vinnur sig út úr núverandi þrengingum verður nauðsynlegt að tryggja stöðugra efnahagsumhverfi fyrir sjávarútveginn sem og aðrar atvinnugreinar. Áfram þarf að tryggja opinn aðgang að alþjóðlegum mörkuðum. Við gerð samninga við önnur ríki er nauðsynlegt að tryggja fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum lands, lofts og sjávar,“ segir í drögunum.
Aðgerðir sjálfstæðismanna í sjávarútvegsmálum: