„Steingrímur J. er hinn nýi Skattmann og skikkjan hefur verið send með hraðpósti frá Bessastöðum. Skattmann er mættur aftur,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er hún ávarpaði landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður var á persónulegu nótunum í ræðunni og ræddi m.a málefni eiginmanns síns Kristjáns og veikindi dóttur sinnar.
Þorgerður sagðist þakklát og auðmjúk og þakkaði Geir H. Haarde sérstaklega fyrir að leiða flokkinn. Hann hefði gegnt erfiðasta starfi sem nokkur maður tekst á við á erfiðustu tímum sem hugsast getur. „Þið eigið ekki í vandræðum með að skilja hvers vegna það er ekki erfitt að sýna slíkum manni tryggð, hann á það svo sannarlega skilið,“ sagði Þorgerður.
Kynslóðaskipti
Hún sagði að það hefðu orðið kynslóðaskipti. Flokkurinn hefði gengið í gegnum hreinsunareld. Hún sagði það óhjákvæmilegt ef skapa ætti traust til frambúðar. „Við sem myndum hina nýju forystu eigum svo sannarlega að halda á lofti góðum verkum forystumanna okkar undanfarin ár og áratugi,“ sagði Þorgerður.
„Við jukum frelsi einstaklinganna og lækkuðum skatta,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að íslenskt samfélag væri sterkt, breytingin á hugarfari fólks væri mikilvægust. Fólk vissi og skildi að lífskjör myndu ekki batna með skattahækkunum og tók salurinn undir að þessum orðum slepptum.
Klöppuðu fyrir Davíð
Hún þakkaði Davíð Oddssyni fyrir forystu sína sem formaður og brást salurinn við með dynjandi lófaklappi þegar á formanninn fyrrverandi var minnst. Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aukið valfrelsi í menntamálum. „Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki stýrt menntamálum undanfarin ár þá væri Háskólinn í Reykjavík ekki til,“ sagði Þorgerður.
Þorgerður vék að erfiðleikum í lífi sínu. „Það sem mest tók á voru erfið veikindi litlu dóttur okkar. Þegar hún náði bata sem var kraftaverki líkastur, guði sé þökk, var gleðin svo mikil að áhyggjur af öðru urðu sem hjómið eitt“ sagði Þorgerður. Hún sagðist telja að hún yrði dæmd af sínum verkum sem varaformaður. Hún sagðist telja að kona þyrfti ekki að svara fyrir starf og laun eiginmanns síns. Þorgerður vék að gagnrýni sem hún hefur legið undir. „Maður getur hunsað slíkar árásir eða rætt málin,“ sagði Þorgerður. Hún fór yfir starfsferil eiginmanns síns, Kristjáns Arasonar, hjá Kaupþingi. Í byrjun 2008 hefði hann sett hlutabréfaeign sína í einkahlutafélag en markmiðið hefði verið að eiga hlutabréfin til lengri tíma. Eignir félagsins hefðu alltaf verið umfram skuldir fram að aðdraganda hrunsins en það hefði lent eins og mörg önnur svipuð félög í miklum vandræðum þegar kreppan skall á í október. Með það félag yrði farið að lögum, eins og öll önnur félög í sambærilegri stöðu.
Hún vék að kjaftasögum um að Kristján hefði verið lykilmaður hjá Kaupþingi. „Sagt er að Kristján hafi vitað allt um ákvarðanir sem teknar voru. Hið rétta er að Kristján var ekki einu sinni skráður sem innherji og það segir allt um aðkomu hans að lykilákvörðunum,“ sagði Þorgerður.
Hún sagði að margt ósmekklegt og rangt hefði verið sagt um hjónaband hennar og Kristjáns. Hlutir sem hún gæti ekki einu sinni haft eftir.
Vék frá prinsippum fyrir dóttur sína
Hún vék að hlutverki sem hún lék í kvikmynd um Skoppu og Skrítlu. „Mér fannst ekki við hæfi að ég sem menntamálaráðherra tæki að mér lítið hlutverk í Skoppu og Skrítlu,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að leitað hefði verið til hennar og dóttur hennar vegna hlutverka í kvikmyndinni. Það hefði verið stór áskorun fyrir dóttur sína að leika þar sem Skoppa og Skrítla hefðu mikla þýðingu fyrir stúlkuna. Því hefði hún vikið frá sínum reglum og tekið hlutverkið að sér.
Hún sagðist stolt af starfi sínu sem varaformaður og menntamálaráðherra. Hún sagði að nýta ætti krafta forystumanna flokksins á landsbyggðinni. Hún sagði mikilvægt að láta ekki djúpa greiningu bíða eftir landsfundi. Hún sagðist líka vilja sjá forystusveitina breiðari og að fleiri ættu að koma að ákvörðunum.
Hún vitnaði til orða Max Webers í bókinni Mennt er máttur um að hinn sanni stjórnmálamaður segði ávallt, „þrátt fyrir allt, þú skalt.“ „Eins og í boltanum, fyrst við erum hérna í Laugardalshöllinni. Við ætlum að berjast, berjast og berjast, þannig verður það,“ sagði Þorgerður. „Við komumst ekki áfram ef frelsið og samkeppnin fær ekki andrými. Við komumst ekki áfram með því að skattleggja okkur úr kreppunni og við komumst ekki áfram úr kreppunni með vinstristjórn við völd.“ Að þessum orðum slepptum brást fundurinn við með dynjandi lófaklappi.
„Steingrímur J er hið nýja Skattmann og skikkjan hefur verið send með hraðpósti frá Bessastöðum. Skattmann er mættur aftur,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að stjórnmálabaráttan yrði með skýrari línum en áður til vinstri og hægri. „Þetta snýst um trú og traust á einstaklinginn eða ríkisforsjá,“ sagði Þorgerður.
Að lokinni ræðu fékk hún standandi lófaklapp allra landsfundarfulltrúa.
Bjarni Benediktsson og Kristján Þór Júlíusson, sem hafa boðið sig fram í embætti formanns, flytja ræður sínar núna kl. 15. Hægt er að fylgjast með í beinni útsendingu hér á mbl.is