Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki vera áhyggjufullur yfir fylgi Framsóknarflokksins. Hann segir að sú ákvörðun að verja ríkisstjórnina falli hafi ekki verið mistök. Sigmundur segist ætla að beita sér fyrir því að bókhald flokksins verði opnað.
„Þessi niðurstaða kemur mér töluvert á óvart en ég hef þó ekki sérstakar áhyggjur því við ákváðum fyrir þónokkru síðan að eltast ekki við skoðanakannanir heldur halda okkar striki og ræða um málefnin,“ segir Sigmundur um niðurstöður skoðanakönnunar Capacent. Flokkurinn mælist nú með 9,8% fylgi á landsvísu og lækkar um 0,9 prósentustig frá síðustu könnun.
Fórnuðu hagsmunum flokksins
Aðspurður hvort það hefðu verið mistök að verja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna segir Sigmundur svo ekki vera. „Við ræddum um það á nokkrum þingflokksfundum áður en þessi ákvörðun var tekin að líklegt væri að við værum að auka fylgi annarra flokka en okkar eigin með þessu. Niðurstaðan var samt sú að við þyrftum, til lengri tíma litið, að byggja endurreisn flokksins á því að vera alltaf sjálfum okkur samkvæm. Við töldum að koma þyrfti á starfhæfri ríkisstjórn en ekki að hugsa fyrst og fremst um flokkshagsmuni,“ segir Sigmundur. Hann sagði að staðan hefði verið metin þannig að það yrði metið flokknum til framdráttar í framtíðinni að „vera hreinskilinn.“
Framsókn dansi á sömu línu og stjórnarflokkarnir
„Það hafa margir reynt að sannfæra mig um það að Framsóknarflokkurinn ætti að tala á sömu nótum og stjórnarflokkarnir. Það er segja að hér sé allt á réttri leið því það væri líklegra til fylgisaukningar. Þá gætum við þakkað okkur fyrir að hafa varið stjórnina vantrausti. Við munum fylgja þeirri stefnu sem við höfum markað að blekkja aldrei fólk og við teljum að hér sé veruleg hætta á áframhaldandi hruni efnahagslífsins og það þurfi róttækar aðgerðir til þess að bregðast við því,“ segir Sigmundur.
Sigmundur segir að Framsóknarflokkurinn beri vissulega sína ábyrgð vegna tólf ára stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum. „Þó Framsókn hafi gert einhver mistök á tólf ára tímabilli eru þau þó lítil miðað við hið fullkomna klúður sem síðustu ríkisstjórn tókst að gera á tólf mánuðum,“ segir Sigmundur.
Tengslin við auðmenn slitin
Aðspurður hvort hann muni beita sér fyrir því að bókhald Framsóknarflokksins verði opnað segir Sigmundur að það hafi verið kannað. „Ég bað um að það yrði kannað hvort það væri hægt. Það voru einhverjar efasemdir um hvort það væri leyfilegt vegna þess að þeir sem veittu styrkina hefðu ekki getað vænst þess að upplýst yrði um þá. Það er alveg ljóst að það eru engar stórar upphæðir og ég hef beðið um að birt verði eins mikið [af upplýsingum] og hægt er,“ segir Sigmundur. Hann segir að það hafi verið rík krafa grasrótarinnar í Framsóknarflokknum á síðasta flokksþingi að slíta öll tengsl við auðmenn. „Grasrótin gerði flokknum þar alveg ljóst að slíta þyrfti öll slík tengsl,“ segir Sigmundur.