Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, segir að skoðanakannanir undanfarinna vikna sýni að flokkurinn hafi fest sig í sessi sem stórt stjórnmálaafl á landsvísu. Vinstri grænir mælast nú með 26% fylgi á landsvísu, sem er 1,7 prósentustigi minna en í síðustu könnun Capacent.
„Þetta er auðvitað gjörbreytt landslag sem hefur verið að birtast okkur undanfarnar vikur og mánuði. Einhvern tímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að það væru ekki tveir turnar heldur þrír í íslenskum stjórnmálum og að Sjálfstæðisflokkurinn væri minnstur,“ segir Steingrímur.
Steingrímur segir að veikburða tilraunir andstæðinga Vinstri grænna til að kynda undir gamaldags hræðsluáróður um skattastefnu flokksins hafi ekki gengið eftir. „Fólk vill heiðarleg, opinská og hreinskiptin stjórnmál. Ég held að það sé borin virðing fyrir því að við segjum það skýrt fyrir kosningar hvað við teljum að gera þurfi að loknum kosningum. Okkar tillögur í skattamálum sem og öðrum eru mjög hófstilltar og ábyrgar. Það hefur verið reynt að snúa út úr þeim, en það hefur greinilega mistekist,“ segir Steingrímur.