Samfylkingin hefur birt yfirlit styrkja frá fyrirtækjum árið 2006. Heildarfjárhæð styrkja lögaðila til Samfylkingarinnar árið 2006 sem voru hærri en 500 þúsund krónur var 36 milljónir, en lægri styrkir lögaðila og styrkir einstaklinga var 9 milljónir króna. Heildarfjárhæð styrkja Samfylkingarinnar árið 2006 var 45 milljónir.
Hæsti styrkurinn er frá Kaupþingi upp á 5 milljónir, því næst Landsbankanum upp á 4 milljónir og þar næst Glitni, 3,5 milljónir. Alls fimm fyrirtæki styrktu Samfylkinguna með 3 milljóna króna fjárframlagi, þar á meðal er FL Group.
Í fréttatilkynningu frá Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, kemur fram að á þessu ári séu 14 ár liðin frá því Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka, en slík lög tóku gildi í ársbyrjun 2007.
Tekur hún einnig fram að ársreikningar Samfylkingarinnar hafi frá stofnun hennar verið aðgengilegir á vef hennar, en þar megi sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafi hins vegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.
„Í samræmi við yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar sl. miðvikudag hefur verið tekið saman yfirlit um þá lögaðila sem styrktu Samfylkinguna árið 2006 með hærri fjárhæð en kr. 500.000,-
Heildarfjárhæð styrkja lögaðila til Samfylkingarinnar árið 2006 sem voru hærri en kr. 500.000 var 36,0 milljónir en lægri styrkir lögaðila og styrkir einstaklinga kr. 9 milljónir. Heildarfjárhæð styrkja Samfylkingarinnar árið 2006 var kr. 45.000.000 eins og fram kemur í opinberum reikningum Samfylkingarinnar.
Meðfylgjandi er yfirlit styrkja til Samfylkingarinnar frá lögaðilum árið 2006 sem voru hærri en kr. 500.000,-
Actavis hf. 3.000.000
Baugur Group hf. 3.000.000
Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga 1.000.000
Eimskipafélag Íslands 1.000.000
Exista ehf. 3.000.000
Eykt ehf. 1.000.000
FL-Group hf. 3.000.000
Glitnir 3.500.000
Kaupþing 5.000.000
Ker hf. 3.000.000
Landsbanki Íslands 4.000.000
Milestone 1.500.000
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis 1.000.000
Straumur Burðarás fjárfestingabanki 1.500.000
Teymi ehf. 1.500.000
Samtals yfir 500.000 36.000.000
Ofangreint yfirlit nær til Samfylkingarinnar sem landsflokks, einstök félög og kjördæmisráð eru með sjálfstæðan fjárhag. Upplýsingum um fjárhag þeirra var ekki safnað saman miðlægt fyrr en með nýjum lögum árið 2007. Nú er verið að safna upplýsingum frá þessum aðilum og verða þær upplýsingar birtar um leið og þær liggja fyrir."