Enginn þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs né aðrir sem tóku þátt í prófkjörum hlutu styrki til að kosta prófkjörsbaráttu fyrir Alþinigskosningar árið 2007, skv. yfirlýsingu sem fjölmiðlafulltrúi flokksins sendi frá sér í kvöld.
Í yfirlýsingunni segir:
„Enginn þingmaður VG né aðrir sem tóku þátt í prófkjörinu hlutu styrki til að kosta prófkjörsbaráttuna enda stríðir það gegn reglum flokksins. Eini útlagði kostnaður þeirra sem háðu prófkjörið var vegna heimasíðuuppsetningar, kökubaksturs og fleira í þeim dúr þannig að um óverulegar fjárhæðir er að ræða.
Einstaklingum í prófkjöri fyrir VG er ekki heimilt að auglýsa út á við og prófkjörið er háð innan flokksins. Kynning á frambjóðendum fór fram á sameiginlegum fundum og í sameiginlegum bæklingum sem var gefinn út af flokknum.
Í fréttinni var sagt fá því að enginn þingmaður sem svaraði spurningum fréttakonunnar, Telmu Tómasson, hefði svarað því hvort hann hafi þegið styrk hærri en hálfa milljón fyrir prófkjörið. Það á því ekki við í tilfelli þingmanna VG.“