Tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar borgarráðsfulltrúa VG um rannsókn á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var samþykkt í borgarráði í dag.
Þorleifur lagði aðra tillögu fram í borgarráði fyrir viku en breytti hennii lítilega með tilliti til athugasemda sem borist hafa, að því er segir í tilkynningu frá VG.
„Lagt er til að skipuð verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á.
Nefndin fái aðgang að skjalasafni Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar og sé jafnframt heimilt að kalla fyrir sig aðila í stjórnkerfi borgarinnar. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.
Nefndin skal leggja fram starfsáætlun fyrir 1. júní 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar. Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 31. desember 2010. Kjaranefnd skal ákvarða laun og önnur starfskjör nefndarmanna," segir í tillögu VG.