Gera athugasemd við utankjörfundakosningu

Lögmaður Blindrafélagsins hefur sent Ögmundi Jónassyni, ráðherra dóms- og mannréttindamála, athugasemdir vegna þess sem félagið telur vera brot á mannrétttindum blindra í utankjörfundakosningu til embættis forseta Íslands.

Í bréfi sem lögmaður Blindrafélagsins hefur sent ráðherra kemur fram að Blindrafélaginu hafa borist tilkynningar þess efnis að blindum einstaklingum sé óheimilt að kjósa í einrúmi með aðstoð fulltrúa að eigin vali, í yfirstandandi forsetakosningum.

Fá ekki að velja sér aðstoðarmann

Framkvæmdin hefur, að sögn félagsmanna í Blindrafélaginu, verið með þeim hætti að aðeins fulltrúi kjörstjórnar má vera blindum til aðstoðar í kjörklefa. Það fyrirkomulag telur Blindrafélagið vera brot á mannréttindum blindra.

„Umbjóðandi minn vill góðfúslega vekja athygli ráðherrans á þeirri grundvallarreglu sem gildir í öllum lýðræðisríkjum að kjósendur skuli geta kosið fulltrúa sína með leynilegri kosningu. Þessi regla kemur m.a. skýrt fram í 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um að kosningar skuli vera leynilegar. Sú regla endurspeglast einnig í 1. mgr. 81. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 þar sem fram kemur að kjósandinn megi einn vera í kjörklefa. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að það sé markmið laganna að blindir skuli geta kosið í einrúmi.

Þessu til viðbótar kemur skýrt fram í 29 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að aðildarríkin skuldbindi sig til að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert