Þóra Arnórsdóttir hvetur þjóðina til þess að endurvekja traust, heiðarleika og umburðarlyndi í grein í Morgunblaðinu í dag.
„Kæru landsmenn. Þá er kjördagur runninn upp. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að fara í gegnum þetta tímabil kosningabaráttu. Það hefur veitt mér tækifæri til að hitta þúsundir Íslendinga og fá staðfest enn og aftur hversu gott fólk býr í þessu landi. Það hefur eflt mig í þeirri trú að framtíðarhorfur okkar séu sérdeilis góðar, ef rétt verður haldið á málum.
Kosningabaráttan hefur einnig staðfest það sem ég tel einn okkar helsta löst. Hún hefur mikið til farið fram á netinu og ekki verið falleg. Tortryggni, upphrópanir, óhróður og ósannindi hafa flogið þar um og komið illa við marga. Sagt er að þetta sé eðlilegur fylgifiskur kosninga, einkum í persónukjöri eins og forsetakosningar eru. Því er ég ósammála. Ég tel einboðið að nú sé kominn tími til að við hefjum umræðuna á annað og betra svið, fylgjum lögmálum rökræðunnar og fjöllum um málefni af virðingu fyrir sjónarmiðum annarra.
Þótt forseti Íslands sé ekki oddviti ríkisstjórnar og hafi takmörkuð pólitísk völd, er áhrifamáttur embættisins mikill. Í kosningabaráttunni hafa vaknað tímabærar umræður um hlutverk forsetans og hvernig hann getur átt þátt í að byggja hér upp betri framtíð án þess að gleyma dýrkeyptri reynslu síðustu ára.
Góðærisárin eru að baki, hrunsárin eru að baki, nú er kominn tími endurreisnar og uppbyggingar. Látum ekki tal um óvissu og drunga hræða okkur til að ganga til móts við framtíðina hnípin með hnút í maga. Við eigum þvert á móti að taka mót nýjum tímum bein í baki, með jákvæðum huga. Ræða þau tækifæri sem nú eru til staðar til að móta samfélag framtíðarinnar. Á hvaða gildum viljum við byggja? Það er ekki ómerkilegt að ræða lífsgildin, því þau ráða miklu um það hvernig okkur líður. Endurreisum traust, heiðarleika og umburðarlyndi, ræðum um það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Leyfum okkur að vera glöð. Ísland er enn eitt ríkasta land í heimi, hér er gott að ala upp börn og hér býr fólk sem hefur metnað og vilja til að bæta úr þeim vanda sem við er að etja um leið og byggt er upp.
Sitjandi forseti hefur aldrei þurft að leggja í viðlíka kosningabaráttu áður, til að halda sæti sínu. Þeir hafa hingað til látið duga að sinna embættinu og láta meta sig af verkum sínum. Hver svo sem úrslit kosninganna verða er ég stolt af þeim mikla árangri sem þegar hefur náðst. Um leið vil ég hvetja Íslendinga til að nýta það tækifæri sem gefst í dag til að brjóta enn eitt blað í Íslandssögunni. Munum að það er ekki verið að kjósa forseta til síðustu fjögurra ára, heldur næstu fjögurra.“
Þóra Arnórsdóttir