Ólafur Ragnar Grímsson segir í grein í Morgunblaðinu í dag að enn sé ólga í efnahagsmálum álfunnar og á mörgum sviðum. Því þurfi rödd Íslands að hljóma skýrt.
„Forsetakosningar eru í senn lýðræðishátíð og þakkargjörð til kynslóðanna sem færðu okkur sjálfstæði.
Þjóðfundir á Þingvöllum, málþing í byggðum landsins, samstaðan sem mótaði helstu áfanga baráttunnar, allt frá útgáfu Fjölnis og Nýrra félagsrita til stofnunar lýðveldis, báru í sér þá sýn að grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar ætti að vera vilji fólksins. Þjóðin færi með hið æðsta vald; hvorki stofnanir né ráðamenn.
Samræðan að undanförnu – á vinnustöðum, heimilum og förnum vegi – hefur gert þessa arfleifð að virku afli, leiðarljósi nýrra tíma. Lýðræðið sem lýðveldið hvílir á býr í vitund og verkum okkar allra.
Íslendingar eru nú á vegamótum. Að baki eru erfið ár. Í vændum ákvarðanir um stjórnarskrá og tengsl okkar við önnur ríki í Evrópu. Enn er ólga í efnahagsmálum álfunnar og á mörgum sviðum. Því þarf rödd Íslands að hljóma skýrt.
Forsetinn er á alþjóðavettvangi málsvari þjóðarinnar í sókn og vörn. Hann á einnig að leggja lið í glímu hennar við hin stærstu mál; þau sem í áratugi munu ráða örlögum Íslendinga.
Það hefur líka verið okkur hjónum gleðiefni að geta á undanförnum árum tekið þátt í að efla hagsæld og velferð, rétta ungu fólki hjálparhönd og hvetja til nýsköpunar og góðra verka í atvinnulífi, listum, menningu og fræðastarfi.
Í aðdraganda kosninganna höfum við notið þess að eiga samræður við þúsundir landsmanna og fá í veganesti á hverjum stað góð ráð og heillaóskir.
Við þökkum ykkur öllum og hvetjum landsmenn til að halda á kjörstað, bjartsýn og sókndjörf.“
Ólafur Ragnar Grímsson