Kosinn bæði frá hægri og vinstri

Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra.
Ragnar Arnalds, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra. mbl.is

„Ljóst er að Ólafur Ragnar fékk mikinn stuðning bæði frá fólki sem kýs til vinstri og hægri í alþingiskosningum og það fylgi fékk hann vegna afdráttarlausrar afstöðu sinnar til málefna sem sameina mikinn meirihluta þjóðarinnar,“ segir Ragnar Arnalds, fyrrverandi fjármálaráðherra og forveri Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á formannsstóli Alþýðubandalagsins en Ragnar var einn þeirra sem hvöttu Ólaf til þess að gefa kost á sér til endurkjörs í vetur.

Vísar Ragnar þar einkum til Icesave-málsins og andstöðunnar við inngöngu í Evrópusambandið.

„Ótvíræð afstaða Ólafs gegn ESB-aðild og framganga hans í Icesave-málinu varð til þess að jafnvel hörðustu andstæðingar hans frá fyrri tíð þyrptust á kjörstað til að styðja hann og margir þeirra sögðu: Ég veit hvað ég hef. En ég veit ekki hvað ég fæ!“ segir Ragnar á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB í dag.

Ragnar segir niðurstöðu forsetakosninganna varpa ljósi á stöðu mála innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fyrir komandi þingkosningar sem fram fara í síðasta lagi næsta vor.

„Flokkurinn mun ganga haltur og hokinn til næstu þingkosninga og sligast mjög undan þeirri þungu byrði sem hann tók á sínar herðar með aðildarumsókninni – nema því aðeins að hann varpi þessu óþverrahlassi af sér með góðum fyrirvara fyrir næstu kosningar og segi við Össur og Jóhönnu: Nú er nóg komið! Þessum könnunarleiðangri er lokið! Hingað og ekki lengra!“ segir Ragnar.

Grein Ragnars Arnalds

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka