Kæran líklega lögð inn í dag

Kosningar.
Kosningar. Kristinn Ingvarsson

Framkvæmd forsetakjörsins sem fram fór 30. júní sl. verður að öllum líkindum kærð til Hæstaréttar í dag. Þetta staðfesti Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, en bandalagið hefur unnið að undirbúningi kærunnar sem bakhjarl þeirra einstaklinga sem standa að henni.

Guðmundur sagði í samtali við mbl.is að verið væri að leggja lokahönd á kæruna sem líklegast verður lögð inn hjá Hæstarétti seint í dag. Ef það tekst er ráðgert að birta hana í heild sinni á morgun á vefsvæði Öryrkjabandalagsins.

Eins og fram kom í ítarlegri fréttaskýringu á mbl.is snemma í mánuðinum telur ÖBÍ - og þeir sem kæra - að framkvæmd kosninganna hafi falið í sér mannréttindabrot. Ákvæði laga um að fulltrúar kjörstjórnar megi einir veita þeim aðstoð sem þurfa stangist á við stjórnarskrá Íslands, Mannréttindasáttmála Evrópu og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Meðal annars segir í samningi SÞ, sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir en ekki fullgilt eða lögfest, að tryggja beri að fötluðum sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali.

Á einkalífið að vera minna virði fyrir fatlað fólk

Ein þeirra sem hafa haft sig hvað mest í frammi þegar kemur að mannréttindum fatlaðs fólks, Freyja Haraldsdóttir, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Þar segir hún að ef Hæstiréttur fallist ekki á þær kröfur sem settar eru fram í kærunni hafi orðið kúvending í afstöðu Hæstaréttar til leynilegra kosninga fyrir borgarana í landinu.

„Það gæti líka verið opinberun á viðhorfi Hæstaréttar til fatlaðra borgara, þ.e. að réttur þeirra til leynilegra kosninga sé opinberlega viðurkenndur sem minna virði en þeirra borgara sem sjá með augunum og geta notað hönd sína til að skrifa x á kjörseðilinn,“ skrifaði Freyja.

Í grein sinni svarar Freyja athugasemdum Sigurðar Líndal lagaprófessors sem sagði í samtali við DV að hann skildi ekki muninn á því að velja sér manneskju, hvort sem það er ráðin aðstoðarmanneskja eða ættingi, eða velja sér embættismann. Einnig að langsótt sé að kæra forsetakosningarnar út af slíkum smávægilegheitum.

„Ef þú skilur þetta ekki þá get ég sagt á móti að ég skilji ekki hvers vegna við tyllum okkur ekki bara öll fyrir framan fulltrúa kjörstjórna á kjörstöðum í næstu kosningum, biðjum þá að haka við þann sem okkur þykir bestur og smella kjörseðlinum í kassann fyrir okkur - þeir eru hvort sem er bundnir trúnaði eins og þú nefnir réttilega. Höfum þetta bara svolítið flippað og hættum þessu veseni, hver þarf hvort sem er þessa kjörklefa?

Ég hef á tilfinningunni að þér hugnist sá kostur ekki. Hví ætti hann því að hugnast mér? Á einkalífið að vera minna virði fyrir fatlað fólk en ófatlað fólk?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka