Á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var ákveðið að efna til prófkjörs við val frambjóðenda á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar 2013.
Fundurinn var haldinn í Mývatnssveit og við lok hans í dag var ályktun samþykkt samhljóða þar sem meðal annars segir að „þegjandi samkomulag“ ríkisstjórnarflokkanna gegn framkvæmdum við orkuvinnslu á Íslandi hafi loksins verið rofið.
„Einnig þarf að ryðja úr vegi sem fyrst öðrum þeim hindrunum sem standa í vegi iðnaðaruppbyggingar á Bakka við Húsavík,“ segir í ályktuninni.
Þá krefst kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi þess að atvinnumál verði sett í forgang með þeim hætti að stuðlað verði að aukinni fjárfestingu í öllum helstu atvinnugreinum kjördæmisins og þess verði sérstaklega gætt að styrkja stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
„Stjórnvöld eiga skilyrðislaust að gefa öllum þeim sem kjósa sér búsetu í þessu kjördæmi tækifæranna frelsi til að nýta þau gæði sem hér eru, Íslandi öllu til hagsbóta.“