Semur ekki án róttækra aðgerða

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að hann semji ekki …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að hann semji ekki um stjórnarmyndun án þess að farið verði í róttækar aðgerðir til leiðréttinga á skuldum heimila. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist ekki munu semja um stjórnarmyndun nema það verði gerðar róttækar aðgerðir í leiðréttingu á skuldum heimilanna. Þetta sagði hann í fréttaskýringaþætti Egils Helgasonar á RÚV í dag þar sem saman voru komnir forystumenn stjórnmálaflokka sem náðu mönnum á þing. Hann lagði áherslu á að hann ætlaði ekki að bakka með þetta kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Sigmundur Davíð sagði það ekki að ástæðulausu að flokkurinn hefði lagt áherslu á það síðustu fjögur ár og þetta væri nokkuð sem þyrfti að gerast. Hann gat þó ekki svarað með beinum hætti hvernig það ætti að gerast og benti á að leiðrétting hefði ekki sömu áhrif á lán sem tekin voru nýlega og lán til dæmis frá árinu 2006.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ósammála þeirri gefnu forsendu að lægri skattar myndu bitna á ríkissjóði til lengri tíma.

Formennirnir ræddu ESB-málið. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa ályktað um að stöðva viðræðurnar og hefja þær ekki að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, minnti á í umræðunni að Alþingi hefði veitt umboð til viðræðnanna og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, lagði áherslu á að ljúka þeim.

Verkefnið að efla samstöðu á vinstri vængnum

Katrín Jakobsdóttir sagði verkefnið næstu árin að efla samstöðuna á vinstri vængnum, en 11,9% atkvæða fóru til flokka sem ekki náðu inn manni á Alþingi, þótt þeir séu ekki allir vinstra megin við miðju.

Árni Páll Árnason sagði að Samfylkingunni hefði ekki tekist það ætlunarverk sem hún var stofnuð til að verða breiðfylking ólíks fólks. Hún hefði orðið of mikill valdaflokkur og það hefði komið í bakið á henni nú. Samfylkingin hefði ekki skapað það rúm sem hefði orðið að verða fyrir fjölbreytt viðhorf.

Komnir niður fyrir Alþýðuflokkinn á níunda áratugnum

Bjarni Benediktsson sagði að þegar litið væri til sögunnar og þeirra dæma sem hún gæfi mætti sjá að Samfylkingin hefði nú færri þingmenn en Alþýðuflokkurinn hefði haft á níunda áratug síðustu aldar, en Samfylkingin varð til úr Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi, Samtökum um kvennalista og Þjóðvaka. Hann minnti einnig á að þingflokkar ríkisstjórnarinnar hefðu nú færri þingmenn samanlagt en Framsóknarflokkurinn í dag.

Þá sagði hann fólk hafa áttað sig á því að það væri engin önnur leið fram á við til að styrkja meðal annars velferðarkerfið en með öflugu atvinnulífi, auknum hagvexti og breyttu skattkerfi. Hann sagði kjósendur hafa hafnað afturhaldsauðlindanýtingarstefnu ríkisstjórnarflokkanna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert