„Þannig er bara lífið í pólitík“

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra er hress þrátt fyrir …
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra er hress þrátt fyrir að hafa misst þingsæti sitt í kosningunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég tel að við getum verið mjög sátt við okkar kosningabaráttu og frammistöðu alls okkar fólks. Við höfum náð að koma því vel á framfæri. Komum öflugri út úr þessari kosningabaráttu heldur en við fórum í hana,“ segir Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna sem féll út af þingi í nýafstöðnum þingkosningum.

Álfheiður var inni og úti til skiptis á meðan atkvæði voru talin en í morgun þegar síðustu atkvæði komu í hús féll hún út við það að Píratar náðu þremur uppbótarþingsætum.

„Það er ekki í fyrsta sinn. Ég hef dottið inn á síðustu mínútunni og nú datt ég út á síðustu mínútunni. Þannig er bara lífið í pólitík,“ segir Álfheiður.

-En það hljóta samt að vera vonbrigði?
„Jú, jú - auðvitað eru það vonbrigði. En það eru fullt af verkefnum í pólitík sem eru ekki inni á Alþingi sem að bíða.“

Geta gengið til baráttu við nýja hægri stjórn

-Þannig að þú ert bara hress og bjartsýn þrátt fyrir allt?

„Ég er bara hress. Ég held að við höfum styrkt stöðu okkar verulega í þessari kosningabaráttu og þó ég hefði gjarnan viljað sjá áttunda og helst níunda manninn inn fyrir okkur. Ég tel að við höfum verið virkilega óheppin að missa áttunda manninn því það er meira á bak við hann heldur en 19. manninn hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki. En þessar reglur eru svona og koma misvel við - en ég tel við megum vel við una. Við höfum skilað góðu verki og getum gengið til baráttu við nýja hægri stjórn og mun ekki af veita.“

-Þú ert viss um að það verði hægri stjórn?

„Já - er nokkuð annað í spilunum? Ég hlustaði á þá í sjónvarpinu, kappana.“

-Ertu farin að huga að því hvað taki við á næstunni hjá þér?

„Nei, ég er ekkert farin að huga að því. Í þessu starfi hefur maður engan tíma til að plana framtíðina. Það bíður alltaf betri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert