„Við teljum eðlilegt að við fáum græna herbergið aftur,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, en samkvæmt niðurstöðum kosninganna á laugardaginn þarf að koma nýjum þingflokkum fyrir á Alþingi.
Framsóknarflokkurinn bætti flestum þingmönnum við sig, fór úr níu í nítján, og Sjálfstæðisflokkurinn bætti við þremur þingmönnum, úr sextán í nítján. Verða sjálfstæðismenn áfram á sama stað í þinghúsinu. Stjórnarflokkarnir töpuðu sem kunnugt er nokkrum þingsætum en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins verður þingflokkur Samfylkingarinnar áfram á sínum stað þó að þingmönnum hafi fækkað úr tuttugu niður í níu. Vinstri grænir misstu sjö þingmenn frá síðustu kosningum og eru nú sjö talsins.
Eftir síðustu kosningar urðu framsóknarmenn að víkja úr „græna herberginu“ svonefnda, sem þeir höfðu haft allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Gerðist það ekki fyrr en um haustið 2009 að samkomulag tókst um að VG og Framsóknarflokkur skiptu á herbergjum og þeir síðarnefndu fengu „gula herbergið“, sem VG hafði.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir val á þingflokksherbergjum ráðast af stærð þingflokka, miðað við fylgi. Þannig fái stærsti flokkurinn stærsta herbergið og síðan koll af kolli.
„Þetta er regla sem sett var hér fyrir nokkrum árum. Við erum heldur ekki að færa til þingflokka nema þörf sé á því, eins og gerðist 2009 þegar þingflokksherbergi VG varð of lítið. Núna er óhjákvæmilegt að gera breytingu þar sem herbergið sem framsóknarmenn hafa haft er of lítið fyrir þá,“ segir Helgi.