Fordæma árásir á Sigmund Davíð

Ein af Facebook-síðunum sem um ræðir, Sjálfstæðismenn í Húnaflóa.
Ein af Facebook-síðunum sem um ræðir, Sjálfstæðismenn í Húnaflóa. mbl.is

„Það sjá all­ir að þessi skrif eru ekki á veg­um sjálf­stæðismanna, held­ur fjand­manna þeirra. Til þess eins skrifuð til þess að koma illu til leiðar og koma höggi á Sjálf­stæðis­flokk­inn,“ seg­ir Ein­ar K. Guðfinns­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, vegna síðna sem sett hafa verið upp á sam­fé­lagsvefn­um Face­book í nafni sjálf­stæðismanna þar sem meðal ann­ars er ráðist að Fram­sókn­ar­flokkn­um og for­manni hans Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni.

Mik­il reiði er á meðal sjálf­stæðismanna vegna máls­ins og hafa mikl­ar umræður skap­ast um það á Face­book þeirra á meðal. Meðal ann­ars hafa ýms­ir framá­menn inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins for­dæmt þess­ar Face­book-síður en á þeim hafa einkum verið birt­ar sam­sett­ar mynd­ir merkt­ar flokkn­um þar sem Sig­mund­ur Davíð er meðal ann­ars sakaður um að vera „lýðræðisníðing­ur“ og að gefa skít í lýðræðið vegna þess að hann hafi tekið við stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boði frá Ólafi Ragn­ari Gríms­syni, for­seta Íslands. Mynd­irn­ar hafa síðan verið tengd­ar („tag­ged“) meðal ann­ars við Face­book-síður ým­issa þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Ekki kunn­ug­ir staðhátt­um í Húnaþingi

„Það hafa hrúg­ast inn á face­book síðuna mína og annarra ósmekk­leg skrif sem sjálf­stæðis­menn hafa verið born­ir fyr­ir,“ seg­ir Ein­ar enn­frem­ur á Face­book-síðu sinni og nefn­ir til sög­unn­ar Face­book-síðurn­ar Sjálf­stæðis­menn er­lend­is og Sjálf­stæðis­menn í Húna­flóa en síðurn­ar eru mun fleiri og tengj­ast inn­byrðis þar sem mynd­un­um er meðal ann­ars deilt á milli þeirra. Meðal ann­ars hef­ur verið vakið máls á því að íbú­ar við Húna­flóa myndu seint tala um að þeir væru í fló­an­um. Ekki sé þannig að sjá að aðstand­end­ur síðunn­ar séu mjög kunn­ir staðhátt­um þar. Þá virðist ein­hverj­ir ein­stak­ling­ar tengj­ast síðunum sem ekki sé að finna í þjóðskrá.

„Því miður hafa ýms­ir látið blekkj­ast og trúað því að hóp­ur sjálf­stæðis­fólks standi á bak við þessa vit­leysu. Dap­ur­legt er til þess að vita að til séu þeir sem leggj­ast svona lágt og haldi úti svona blekk­ing­ar og rógs­skrif­um. Vilji menn koma höggi á Sjálf­stæðis­flokk­inn þá hljóta þeir að geta gert bet­ur en þetta,“ seg­ir Ein­ar sömu­leiðis en auk hans hafa til að mynda Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, og Ólöf Nor­dal, fyrr­ver­andi þingmaður og vara­formaður flokks­ins, for­dæmt uppá­tækið.

„Ef ein­hver vill kalla SDG [Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son] eða ein­hvern ann­an öll­um ill­um nöfn­um þá er það á ábyrgð þess sem það skrif­ar!“ skrif­ar Guðlaug­ur Þór á Face­book-síðu sinni í gær og bæt­ir við: „Mér finnst það fyr­ir neðan all­ar hell­ur og bið viðkom­andi að hætta að tengja þess­ar skoðanir við Sjálf­stæðis­flokk­inn! Èg fer einnig fram á að vera ekki taggadur á þessi skila­boð.

Ólöf tók í sama steng í gær: „Hef ít­rekað verið "tögguð" á mynd­ir mér óviðkom­andi. Virðist þetta tengj­ast stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum. Mér finnst síður þess­ar ósmekk­leg­ar og afþakka að mitt nafn sé bendlað við þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka