Fordæma árásir á Sigmund Davíð

Ein af Facebook-síðunum sem um ræðir, Sjálfstæðismenn í Húnaflóa.
Ein af Facebook-síðunum sem um ræðir, Sjálfstæðismenn í Húnaflóa. mbl.is

„Það sjá allir að þessi skrif eru ekki á vegum sjálfstæðismanna, heldur fjandmanna þeirra. Til þess eins skrifuð til þess að koma illu til leiðar og koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna síðna sem sett hafa verið upp á samfélagsvefnum Facebook í nafni sjálfstæðismanna þar sem meðal annars er ráðist að Framsóknarflokknum og formanni hans Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Mikil reiði er á meðal sjálfstæðismanna vegna málsins og hafa miklar umræður skapast um það á Facebook þeirra á meðal. Meðal annars hafa ýmsir framámenn innan Sjálfstæðisflokksins fordæmt þessar Facebook-síður en á þeim hafa einkum verið birtar samsettar myndir merktar flokknum þar sem Sigmundur Davíð er meðal annars sakaður um að vera „lýðræðisníðingur“ og að gefa skít í lýðræðið vegna þess að hann hafi tekið við stjórnarmyndunarumboði frá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Myndirnar hafa síðan verið tengdar („tagged“) meðal annars við Facebook-síður ýmissa þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Ekki kunnugir staðháttum í Húnaþingi

„Það hafa hrúgast inn á facebook síðuna mína og annarra ósmekkleg skrif sem sjálfstæðismenn hafa verið bornir fyrir,“ segir Einar ennfremur á Facebook-síðu sinni og nefnir til sögunnar Facebook-síðurnar Sjálfstæðismenn erlendis og Sjálfstæðismenn í Húnaflóa en síðurnar eru mun fleiri og tengjast innbyrðis þar sem myndunum er meðal annars deilt á milli þeirra. Meðal annars hefur verið vakið máls á því að íbúar við Húnaflóa myndu seint tala um að þeir væru í flóanum. Ekki sé þannig að sjá að aðstandendur síðunnar séu mjög kunnir staðháttum þar. Þá virðist einhverjir einstaklingar tengjast síðunum sem ekki sé að finna í þjóðskrá.

„Því miður hafa ýmsir látið blekkjast og trúað því að hópur sjálfstæðisfólks standi á bak við þessa vitleysu. Dapurlegt er til þess að vita að til séu þeir sem leggjast svona lágt og haldi úti svona blekkingar og rógsskrifum. Vilji menn koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn þá hljóta þeir að geta gert betur en þetta,“ segir Einar sömuleiðis en auk hans hafa til að mynda Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, fyrrverandi þingmaður og varaformaður flokksins, fordæmt uppátækið.

„Ef einhver vill kalla SDG [Sigmund Davíð Gunnlaugsson] eða einhvern annan öllum illum nöfnum þá er það á ábyrgð þess sem það skrifar!“ skrifar Guðlaugur Þór á Facebook-síðu sinni í gær og bætir við: „Mér finnst það fyrir neðan allar hellur og bið viðkomandi að hætta að tengja þessar skoðanir við Sjálfstæðisflokkinn! Èg fer einnig fram á að vera ekki taggadur á þessi skilaboð.

Ólöf tók í sama steng í gær: „Hef ítrekað verið "tögguð" á myndir mér óviðkomandi. Virðist þetta tengjast stjórnarmyndunarviðræðum. Mér finnst síður þessar ósmekklegar og afþakka að mitt nafn sé bendlað við þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka