„Ég neita þessu innilega“

Ein af þeim síðum sem birtar hafa verið á Facebook …
Ein af þeim síðum sem birtar hafa verið á Facebook í nafni Sjálfstæðisflokksins.

Formaður Heimdallar heldur því fram í pistli á Facebook að blaðamaður sem starfar á DV beri ábyrgð á síðum sem birst hafa á samskiptavefnum í nafni sjálfstæðismanna, en Framsóknarflokkurinn og formaður hans eru harðlega gagnrýndir á umræddum Facebook-síðum. Í samtali við mbl.is vísar umræddur blaðamaður ásökunum alfarið á bug.

„Ég tel hinsvegar einnig að Jóhann Páll [Jóhannsson heimspekinemi og blaðamaður á DV] sé kominn langt yfir strikið þegar hann níðir Sjálfstæðisflokkinn í hans eigin nafni með ýmsum tilbúnum facebook síðum eins og ,,Sameinaðir sjálfstæðismenn” ,,Sjálfstæðismenn erlendis” ,,Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða næstu ríkisstjórn” ,,Stuðningsmenn Brynjars Níelssonar” ,,Tómas Hreinn Guðmundsson” og ég gæti lengi talið. Skárra er þá að hann níði flokkinn undir ,,Alþingisvaktinni" eða síðum þar sem hann lýgur allavega ekki til um uppruna þeirra,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, á Facebook-síðu sína í dag.

„Þetta er ekki rétt,“ segir Jóhann Páll í samtali við mbl.is. Hann tekur fram að hann hafi ásamt vinum sínum staðið á bak við grínsíðuna Sturl Ung - ungliðahreyfing Sturlu Jónssonar á Facebook. „Ég held að þetta sé misskilningur sem er sprottinn þaðan. Það hefur gengið orðrómur um þetta [að Jóhann Páll beri ábyrgð á síðunum sem birtar hafa verið í nafni sjálfstæðismanna].“

Beitir ekki „skítabrögðum“

„Hún [Áslaug Arna] er náttúrulega að vega gróflega að starfsheiðri mínum með því að halda þessu fram,“ segir Jóhann Páll ennfremur. Hann bætir því við að hann hafi hringt í Áslaugu til að spyrja hana hvað henni gengi til með þessum ásökunum. „Hún sagði að hún hefði nokkra heimildarmenn,“ segir hann. Þarna sé um að ræða orðróm sem hafi gengið um lagadeild Háskóla Íslands.

 „Ég neita þessu innilega. Ég fyrirlít Sjálfstæðisflokkinn en ég hef samt snefil af sómakennd og ég myndi ekki grípa til hvaða skítabragða sem er,“ segir Jóhann Páll sem telur líklegt að margir einstaklingar séu á bak við síðurnar sem eru tengdar við Sjálfstæðisflokkinn.

Aðspurður kveðst Jóhann Páll hafa ákveðnar grunsemdir um hver eigi hlut að máli, en hann vísar til einstaklings sem heldur úti síðu grínpersónu að hafni Tómas Hreinn Guðmundsson sem er uppspuni frá rótum. Spurður nánar segist Jóhann Páll ekki vilja ljóstra upp um sínar grunsemdir.

Athugasemd frá Jóhanni Páli kl. 17:10.

„Ég hljóp á mig þegar ég sagðist fyrirlíta Sjálfstæðisflokkinn og má til með að biðjast afsökunar á þeim ummælum. Ég fyrirlít ekki flokkinn og hvað þá alla sem starfa innan hans þótt ég sé ósammála ýmsu af því sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir,“ segir Jóhann Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka