Í kosningastefnuskrám bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna loforð um að leysa skuldavanda heimilanna með því að veita sérstakan skattaafslátt sem verði notaður til að lækka höfuðstól húsnæðislána.
Framsóknarflokkur lagði í kosningabaráttu sinni höfuðáherslu á að nýta það „svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna ... til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.“
Þetta loforð var talsvert gagnrýnt í kosningabaráttunni. Sjálfstæðismenn bentu m.a. á að þeir sem skulda mest myndu fá mest. 20% skuldaniðurfærsla þýddi að sá sem skuldar 120 milljónir fær 24 milljónir í skuldalækkun en sá sem skuldar 20 milljónir fengi 4 milljónir í lækkun.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði í sinni stefnu fram tillögu um að færa „allt að 40.000 krónur á mánuði í sérstakan skattaafslátt vegna afborgana af íbúðaláni“. Flokkurinn lagði líka til að fólki yrði heimilað að nota framlag sitt og vinnuveitanda í séreignarsparnað til að greiða skattfrjálst niður höfuðstól lánsins. Þetta myndi þýða að mánaðarlega færu 4% launanna inn á höfuðstól íbúðalánsins.
Athygli vekur að talað er um „allt að 40.000 krónur“ og ekkert er fjallað um hvaða áhrif það hefur ef hjón standa að baki láninu.
Framsóknarmenn gagnrýndu talsvert þessa leið og sögðu að þetta þýddi að þeir sem væru með mestar tekjur fengju skattaafslátt og þeir sem ekki greiddu skatta fengu enga skattaafslátt.
Það vekur hins vegar athygli að í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins er að finna tillögu um skattaafslátt sem er efnislega eins og tillaga sjálfstæðismanna. Þar segir „að skattaafsláttur verði veittur vegna afborgana húsnæðislána og upphæð afsláttarins greiðist beint inn á höfuðstól lánsins. Áfram verði leitað leiða til að veita fólki jákvæða hvata til að standa í skilum og minnka skuldsetningu heimilanna.“
Ekki verður annað séð en að forystumönnum flokkanna ætti reynast auðvelt að ná saman um þessa lagabreytingu. Sjálfstæðismenn segja að þeirra tillaga kosti ríkissjóð 16 milljarða á ári. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í umræðuþætti á Stöð tvö, að sjálfstæðimenn gerðu ráð fyrir að um tímabundinn afslátt væri að ræða sem stæði í fimm ár.
Ekki virðist heldur vera neinn ágreiningur milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að samningar við eigendur þrotabúa bankanna skapi svigrúm sem geti skilað ríkissjóði verulegum fjármunum. Erlendir eigendur þrotabúanna eru með um 2.500 milljarða króna bundna hér á landi og vegna gjaldeyrishaftanna komast þeir ekki með þessa peninga burt nema að leita eftir samningi við íslensk stjórnvöld. Enginn veit hve langan tíma tekur að semja við þrotabúin og enginn veit heldur hversu mikla fjármuni viðræðurnar gætu skilað. Sumir hafa nefnt tölur eins 250-300 milljarða.
Það er hins vegar pólitísk spurning hvað ríkissjóður á að gera við þessa 300 milljarða. Framsóknarmenn eru búnir að svara þeirri spurningu alveg skýrt. Þeir eiga að ganga til heimilanna í landinu. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, bendir hins vegar á að ef þessir 300 milljarðar væru notaðir til að lækka skuldir ríkisins, en það skuldar um 1.500 milljarða, væri hægt að lækka árlegan vaxtakostnað ríkissjóðs um 13 milljarða. Áætlað er að ríkissjóður þurfi á þessu ári að borga 88 milljarða í vexti.
Draga má þá ályktun að ef ný ríkisstjórn setur á sumarþingi lög um skattaafslátt til niðurgreiðslu húsnæðislána og semur síðan síðar á kjörtímabilinu við þrotabú bankanna kæmi til greina að skipta ágóðanum sem kemur út úr þeim samningum milli heimilanna og ríkissjóðs.
Frosti Sigurjónsson, nýr þingmaður Framsóknarflokksins, benti á í umræðuþættinum á Stöð tvö, að þó að það dragist að ná samkomulagi við þrotabú bankanna mætti fara aðrar leiðir til að ná peningum af þeim. Með því að leggja 2% skatt á eignir þrotabúanna fengi ríkissjóður um 50 milljarða. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði að ríkisstjórnin hefði haft þessa leið til skoðunar.
Það hefur stundum verið sagt að í aðdraganda kosninga eigi ríkissjóður fáa vini. Stjórnmálamenn lofa miklu í kosningabaráttunni og ríkisstjórnarflokkarnir stofna til nýrra útgjalda sem eiga að koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili.
Ríkissjóður stendur frammi fyrir þungri greiðslubyrði af lánum á næstu árum. Ríkið þarf að greiða 170 milljarða þann 1. janúar 2014 af fimm ára skuldabréfi sem gefið var út árið 2008. Ákveðið hefur verið að framlengja láninu og breyta lánaskilmálum. Árið 2018 þarf ríkissjóður að greiða 213 milljarða af láni sem tekið var til að fjármagna eiginfjárframlag ríkissjóðs til fjármálastofnana.
Í nýrri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika kemur fram að þjóðin á ekki gjaldeyri fyrir afborgunum erlendra lána næstu árin.
Skuldamál heimilanna verður aðeins eitt af mörgum brýnum verkefnum sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Ef við höldum okkar við skuldamálin þá þarf ný ríkisstjórn að taka ákvörðun um framtíð Íbúðalánasjóðs. Frá árinu 2008 er tap sjóðsins um 52 milljarðar króna og frá árinu 2010 hefur eiginfjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs numið um 46 milljörðum króna. Það er alveg ljóst að ríkissjóður þarf að leggja með einum eða öðrum hætti meira fé til sjóðsins á næstu árum.
Ekki mun draga úr vanda Íbúðalánasjóðs ef ný ríkisstjórn hrindir í framkvæmd loforði Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar á húsnæðislánum, en öll lán Íbúðalánasjóðs eru verðtryggð og öll skuldabréf sjóðsins sem liggja að baki þessum lánum eru verðtryggð. Framsóknarmenn hafa ekki lofað að breyta öllum gömlum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Þeir hafa lagt áherslu á að banna verðtryggingu á öllum nýjum lánum og bæta síðan við að fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar eigi að vera „að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána“.
Annað risastórt mál sem allir flokkar hafa lýst stuðningi við er afnám gjaldeyrishafta. Seðlabankinn hefur kynnt áætlun um losun gjaldeyrishafta. Ljóst er að þetta verkefni kallar á náið samstarf milli Seðlabankans, stjórnvalda og kröfuhafa bankanna. Sú hætta er fyrir hendi að við afnám gjaldeyrishafta lækki gengi krónunnar sem aftur leiðir til verðbólgu og hækkun verðtryggðra skulda heimilanna. Afnám gjaldeyrishafta verður því ekki rædd nema í tengslum við skuldamál heimilanna. Til lítils er að grípa til viðamikilla aðgerða fyrir heimilin ef ávinningur aðgerðanna brennur upp í verðbólgu í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta.
Í nóvember renna kjarasamningar úr gildi og ljóst að þeir koma til með að kalla á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Aldraðir og öryrkjar telja sig hlunnfarna í niðurskurði síðustu ára og vonast eftir að stjórnmálamenn, sem lofað hafa að bæta kjör þeirra, standi við stóru orðin. Þá er ónefndur vandi lífeyrissjóðs opinbera starfsmanna. Þar vantar yfir 400 milljarða. Tvö ár eru síðan Fjármálaeftirlitið krafðist þess að þegar í stað yrði tekið á vanda sjóðsins. Núverandi ríkisstjórn hefur ýtt þessum vanda á undan sér.
Einn viðmælandi blaðsins sagði að verkefnin sem biðu þeirra stjórnmálamanna sem nú eru að reyna að mynda ríkisstjórn væru svo flókin og viðamikil að það væri engin leið fyrir forystumenn stjórnmálaflokkanna að ná að finna lausn á þeim öllum í nokkurra vikna stjórnarmyndunarviðræðum. Hann sagðist raunar efast um að framsóknarmenn væru með á hreinu hvernig þeir ætluðu hrinda í tillögum sínum í skuldamálum í framkvæmd.
Framsóknarmenn sem mbl.is ræddi við sögðu vissulega rétt að verkefnin væru mörg og flókin. Aðalatriðið væri að menn næðu samkomulagi um hvert ætti að stefna og hver markmiðin ættu að vera. Það yrði síðan verkefni nýrrar ríkisstjórnar að útfæra þá stefnu sem mörkuð verður í stjórnarsáttmála.