Segir Framsókn tæpast stjórntæka

Friðjón R. Friðjónsson.
Friðjón R. Friðjónsson. mbl.is

„Ég verð að viðurkenna að ég hef takmarkaða trú á því að þingflokkur Framsóknarflokksins sé stjórntækur þótt þessa dagana sé hann fullur af lofti sem flestir rugla við sjálfstraust,“ skrifar Friðjón R. Friðjónsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins á bloggsíðu sína í dag.

„Verkefnin sem eru framundan eru mikil og erfið og það er fátt sem bendir til þess af viðbrögðum framsóknarmanna í fjölmiðlum, eftir kosningar, að þeir geri  sér grein fyrir þeim og hafi hugmynd um hvað þeir ætli að gera,“ skrifar Friðjón.

Lítil þingreynsla

„Það er kannski ekki skrítið þegar maður lítur til reynslu þingflokksins. Einn þingmaður, Höskuldur Þórhallsson, hefur setið á þingi í meira en 4 og ½ ár. Eygló Harðardóttir er næstmesti reynsluboltinn á þingi, hún hefur setið á þingi í 4 ár og nokkra mánuði.

Þegar maður lítur á þingflokkinn þá blasir það við að hann er reynslulítill og búast má við að reynslumestu þingmennirnir verði ráðherrar ef Sigmundi Davíð tekst að mynda ríkisstjórn. Ef Sigmundur, Sigurður Ingi, Eygló, Gunnar Bragi og Vigdís verða ráðherrar hverjir í ósköpunum eiga að leiða þingstörf framsóknar?“

Friðjón segir að nú sé það ekki svo að allir þingmenn þurfi að vera hoknir af reynslu í þingsköpum, „en það er samt áhyggjuefni að flokkurinn sem forseti Íslands valdi fyrstan til að leiða stjórnarmyndun hefur ekki meiri reynslu af þingi og stjórnsýslu en raun ber vitni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka