Framsókn og Sjálfstæðisflokkur í stjórnarmyndunarviðræður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem hann segir Framsóknarflokkinn ætla að fara í stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokki. Segir Sigmundur að skuldamál heimilanna séu í forgangi í viðræðum. Segist hann meta málið sem svo að góður vilji sé meðal Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks, um vinna að útfærslu um skuldamál.

Í fréttatilkynningu frá Sigmundi segir:

„Frá því að forseti Íslands veitti mér umboð til að hefja stjórnarmyndunarviðræður s.l. þriðjudag hef ég átt mjög gagnleg undirbúningssamtöl við forystumenn þeirra flokka sem fengu þingmenn kjörna í kosningunum í apríl. Ég hef einnig notað tímann til að fara yfir og rifja upp helstu áhersluatriði flokkanna í kosningabaráttunni sem á undan fór.

 Af hálfu míns flokks hef ég lagt áherslu á þau mál sem flokkurinn setti í forgang fyrir kosningar, einkum leiðréttingu á skuldum heimilanna. Auk þess hafa ýmis önnur mál verið reifuð. Þótt skoðanir séu skiptar um sumt, eins og vænta mátti, er mikill samhljómur í afstöðu flokka til margra mála. Það gefur von um að stjórnmálamenn ólíkra flokka muni geta sameinast um ýmis framfaramál á kjörtímabilinu.  

 Það er niðurstaða mín að hefja nú formlegar stjórnarmyndunarviðræður á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ég met undirbúningssamtöl mín við formann Sjálfstæðisflokksins svo að góður vilji sé til þess af hans hálfu að vinna að útfærslu á aðgerðum vegna  skuldamálanna með árangur fyrir heimilin í forgrunni lausnanna. Verði í því augnamiði horft til þeirra hugmynda að lausn sem Framsókn hefur unnið að og kynnt og jafnframt og um leið til þeirra útfærslna sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði lagt áherslu á, sem leið að sama marki.

 Eins og ég hef lagt áherslu á má tengja lausn þessara mála þeirri staðreynd að kröfuhafar í bú föllnu bankanna verða að sæta afföllum af kröfum sínum. Líkur standa til að fyrrgreindum aðilum sé þessi staða ljós. Ekki er því stefnt að því að endurreisn heimilanna valdi ríkissjóði búsifjum sem hann má ekki við.

 Margvísleg önnur mál bíða úrlausnar á kjörtímabilinu, mál sem geta haft mikil áhrif á velferð þjóðarinnar í bráð og lengd. Því er eðlilegt að leitast verði við, a.m.k. í fyrstu atrennu, að mynda stjórn með nægjanlega öflugan þingmeirihluta til að ríkisstjórn sem við hann styðst hafi afl til að sinna óvenju vandasömum verkum. Einnig er sjálfsagt við upphaf formlegra stjórnarmyndunarviðræðna að hafa ríka hliðsjón af þeim skilaboðum sem lesa má úr niðurstöðum nýafstaðinna kosninga,“ segir í fréttatilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert