Flestir strikuðu yfir nafn Bjarna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn

Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi strikuðu flestir yfir nafn Bjarna Benediktssonar í nýafstöðnum þingkosningum. Útstrikanir, eða færsla í sæti neðar en nemur röðunartölu, voru 738. Hlutfallið af atkvæðatölu listans nemur 4,73%.

Þetta kemur fram í samantekt frá landskjörstjórn.

Bjarni var efsti maður á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Elín Hirst, sem var fimmti maður á lista flokksins, kemur næst á eftir Bjarna með 551 útstrikun. Nemur hlutfallið 3,53%. Vilhjálmur Bjarnason, fjórði maður á listanum, var með 373 útstrikanir, eða 2,39%.

Kjósendur Bjartrar framtíðar strikuðu flestir yfir nafn Freyju Haraldsdóttur sem var önnur á lista flokksins. Alls voru útstrikanirnar 152 talsins, eða 3,24%

Þá var oftast var strikað yfir nafn Ögmundar Jónassonar, sem var efsti maður á lista VG í Kraganum, eða 93 sinnum. Hlutfallið nam 2,33%.

Sé litið til Samfylkingarinnar í kjördæminu, þá strikuðu flestir yfir nafn Margrétar Gauju Magnúsdóttur, sem var fjórða á lista flokksins, eða 101 útstrikun. Hlutfallið var 1,46%. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar sem var efsti maður listans, kom næstur á eftir henni með 87 útstrikanir, eða 1,26%.

Hjá Pírötum strikuðu flestir yfir nafn Hákonar Einars Júlíussonar. Útstrikanirnar voru 25, eða 0,98% af atkvæðatölu listans.

Hjá Framsóknarflokknum strikuðu flestir yfir nafn Eyglóar Harðardóttur, sem var efsti maður listans. Útstrikanirnar voru 64 eða 0,58% hlutfall.

Tekið skal fram að ofangreindar útstrikanir hafa engin áhrif á röð frambjóðenda á listum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka