Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, skorar á fulltrúa í stjórnarmyndunarviðræðum að standa með þeim rúmlega 60% kjósenda sem kusu flokka með markmið um leiðréttingu á stökkbreyttum verðtryggðum lánum. Þetta kemur fram í ályktun sem framkvæmdaráð Dögunar hefur sent frá sér.
„Dögun væntir þess af verðandi ríkisstjórn að fyrirheit um niðurfærslu lána nái fram að ganga.
Ýmsir aðilar; hagsmunasamtök, fræðimenn og stjórnmálasamtök, Dögun þar með talin, hafa bent á ýmsar leiðir sem eru færar í þessu efni án þess að reikningurinn lendi á skattgreiðendum. Þetta er réttlætismál sem verður að ná fram að ganga til að sátt geti skapast í samfélaginu.
Dögun hvetur Alþingi til víðtækra umbóta í lánamálum sem tryggja bætta réttarstöðu neytenda og tafarlaust afnám verðtryggingar.
Dögun minnir á að um 12% kjósenda, sem mættu á kjörstað, fengu enga fulltrúa kjörna á Alþingi vegna þess 5% þröskuldar sem valdaflokkar hafa reist um sig.
Einstakir fjölmiðlar juku án efa sálræn áhrif þröskuldarins með sniðgöngu þeirra framboða sem ekki höfðu náð yfir 5% múrinn í skoðanakönnunum mörgum vikum fyrir kjördag,“ segir enn fremur í ályktun Dögunar.