Framsókn setur fram óskir varðandi áframhaldandi samstarf

Ómar Stefánsson.
Ómar Stefánsson.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavogi og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri áttu fund í morgun þar sem Ómar gerði grein fyrir þeim væntingum sem Framsóknarmenn gera til áframhaldandi meirihlutasamstarfs flokkanna tveggja.

„Við settum fram ákveðnar óskir og þeir komu með tillögur að breytingum á þeim,“ segir Ómar. „Hann bað mig síðan um að gefa sér tækifæri á að ræða við sitt fólk.“

Í hverju felast þessar óskir? „Ég get ekki greint frá því núna.“

Titringur hefur verið í bæjarstjórninni vegna stuðnings Gunnars Birgissonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi í fyrradag, við tillögu minnihlutans um fjölgun félagslegra leiguíbúða í óþökk meirihlutans.

Lánshæfismat bæjarins var lækkað í dag og segir bæjarstjóri það vera vegna þessarar ákvörðunar. Fulltrúar Samfylkingarinnar segja aftur á móti að bæjarstjóri hafi með gífuryrðum talað lánshæfimatið niður.

„Þau [fulltrúar minnihlutans] eru að átta sig á því núna að þetta eru mistök, að þau hefðu átt að fara betur í gegnum þetta. Í tillögunni sem var samþykkt segir skýrt að það eigi að fara í þessar aðgerðir nú þegar. Það er alveg skýrt í mínum huga hvað það þýðir,“ segir Ómar. „En nú á að reyna að koma þessu öllu yfir á bæjarstjórann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert