Segja bæjarstjóra bregðast hlutverki sínu

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

Fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs segja Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra bregðast hlutverki sínu og vinna gegn hag bæjarins. Ástæðan sé „persónuleg innansveitarkróníka“ Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Þetta segir í tilkynningu frá Samfylkingunni í Kópavogi.

„Dómgreindarskortur bæjarstjóra Kópavogs náði nýjum hæðum þegar hann í kjölfar eigin upphrópana og gífuryrða fór sjálfur fram á nýtt lánshæfismat fyrir bæinn.  Það hlýtur að vera einsdæmi að bæjarstjóri standi á torgum úti og tali niður fjárhag bæjarins.  Nákvæmlega engin ástæða var á þessum tímapunkti til þess að kalla eftir nýju mati,“ segir í tilkynningunni.

„Þarna vinnur Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri beinlínis gegn hag bæjarins, keyrir sjálfur niður lánhæfismatið í tengslum við einhverja persónulegra innansveitarkróniku Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.“

Forsaga málsins er samþykkt minnihluta bæjarstjórnar um kaup og byggingu á félagslegu- og leiguhúsnæði á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn þriðjudag. Hún felur í sér kaup á 30-40 félagslegum íbúðum og byggingu tveggja fjölbýlishúsa fyrir leigumarkað. Að samþykktinni stóðu fulltrúar minnihlutans, Samfylkingar, VG og Næstbesta flokksins auk Gunnars Birgissonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Y-listi mynda meirihlutann í bæjarstjórn Kópavogs.

Segja bæjarstjóra grafa undan lýðræðislegum ákvörðunum

Í tilkynningunni segir að bæjarstjóri sé algjörlega að bregðast hlutverki sínu sem er að framfylgja vilja bæjarstjórnar. „En með þessu er hann að grafa undan lýðræðislegum ákvörðunum hennar.  Eins og bæjarstjóra hefur margoft verið bent á er hér um að ræða fjárútlát sem nema um 1,8 milljörðum og mun sú upphæð ekki falla öll til á árinu 2014.  Samt kýs bæjarstjóri að ýkja vænt útgjöld bæjarins og byggir því ósk sína um endurnýjað lánshæfismat á röngum forsendum.“

„Við ítrekum að með þessari samþykkt meirihluta bæjarstjórnar er verið að koma til móts við fjölda fólks sem býr við óöryggi á leigumarkaði, afleitar aðstæður og jafnvel húsnæðisleysi,“ segir í tilkynningunni.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka