Sækist eftir 3.-4. sæti í Reykjavík

Anna María Jónsdóttir.
Anna María Jónsdóttir.

Anna María Jónsdóttir gefur kost á sér í 3.-4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Flokksval fer fram 7.-8. febrúar nk.

Anna María hefur langa reynslu af starfi í grunnskóla og leggur höfuð áherslu á að gera grunnskólann að betri vinnustað fyrir nemendur og kennara og mikilvægi þess að tryggja að aðstaða, aðbúnaður og mannafli sé til staðar í grunnskólanum til að uppfylla þær áherslur sem síbreytilegt samfélag setur, að því er segir í tilkynningu.

„Aðbúnaður, umönnun og þjónusta við aldraða er mikilvægt mál sem varðar okkur öll. Það er samfélagsleg skylda okkar að hlúa vel að öldruðum og gera þeim kleift að búa og lifa síðustu æviárin þannig að þeir haldi reisn sinni. Þá þarf að huga að andlegri líðan ekki síður en líkamlegri.

Unnið hefur verið frábært starf í skipulags og samgöngumálum undanfarin ár og ber metnaðarfullt og vel unnið nýtt aðalskipulag þess glöggt vitni. Áframhaldandi áhersla á þéttingu byggðar og úrbætur í samgöngumálum eru brýn verkefni sem býður komandi borgarstjórn,“ segir í tilkynningu.

Anna María 51 árs þriggja barna móðir. Hún lauk Bed prófi frá KHÍ 1994 og MBA frá HÍ 2009. Hefur meira og minna starfað við kennslu í grunnskólum í Reykjavík undanfarin 16 ár ef frá eru talin 2 ár sem hún starfaði við hótelrekstur á Grikklandi. Hún starfar nú sem íslenskukennari við Háteigsskóla í Reykjavík. Á árum áður starfaði Anna María m.a. á skrifstofu borgarstjórnar, í stjórnarráðinu, með fötluðum og við starfsráðningar.
Anna María sat í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík 2011-2013 fyrra árið sem stjórnarmaður og síðara árið sem formaður félagsins. Hún var kosin í framkvæmdastjórn flokksins árið 2013. Hefur þess utan gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir kennara, var trúnaðarmaður um nokkurra ára skeið og sat eitt ár í stjórn Kennarafélags Reykjavíkur.

Stofnuð hefur verið facebook síða https://www.facebook.com/amjons vegna framboðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert