„Þetta er fullkomulega löglegt“

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

„Þetta er fullkomulega löglegt eins og þetta liggur fyrir í bókuninni. Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir um nánari fjárútlát. Það er búið að ákveða að fara af stað út í þetta verkefni,“ segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingar í Kópavogi.

Tilefnið er það mat Guðjóns Bragasonar, sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, að stuðningsmenn umdeildrar tillögu í húsnæðismálum innan bæjarstjórnar Kópavogs þurfi að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun eigi skuldbinding um fjölgun leiguíbúða í bænum að standast lög. Var fjallað um málið í Morgunblaðinu í gær.

Guðríður segir aðspurð um þetta að það hafi alltaf legið fyrir að leggja þyrfti fram viðauka vegna umræddrar skuldbindingar.

Vísar til 62. greinar

„Þegar kemur að því að verja fjármunum úr bæjarsjóði þarf að leggja fram viðauka við fjárhagsáætlun. Það hefur legið fyrir allan tímann. Eins og kveðið er á um í 62. grein sveitarstjórnarlaganna verður að liggja fyrir fjármögnun á þessum viðbótarútgjöldum og munu tekjur vegna lóðaúthlutana á árinu standa undir þeim.

Við getum farið af stað og keypt 15 íbúðir á næstu vikum og mánuðum, enda er nú þegar heimild til þess í fjárhagsáætlun fyrir 2014. Það stóð aldrei til að kaupa 30-40 íbúðir nú í janúarmánuði. Nú förum við stað að skoða hvar við viljum hafa þessar tvær blokkir fyrir leiguíbúðir. Framkvæmdir munu væntanlega ekki hefjast fyrr en seint á þessu ári, ef vel gengur. Við þurfum líka að sjá hversu vel það gengur að kaupa íbúðir.

Ástæðan fyrir því að við getum lagt þetta fram er sú að ekki er gert ráð fyrir tekjum af lóðasölu í fjarhagsáætlun. Það gengur vel að úthluta lóðum og má ætla að það skili bænum hundruð milljóna tekjum á þessu ári. Þetta mun ekki hafa áhrif á greiðslu skulda á árinu en það stendur til að lækka skuldir bæjarins úr 44 milljörðum niður í rúman 41 milljarð sem er lækkun upp á tæpa 3 milljarða.  Það er nú þegar búið að fjármagna þær niðurgreiðslur, það er tekið frá rekstri og af tekjum síðasta árs vegna lóðaúthlutana.

Þannig að þegar viðauki við fjárhagsáætlun verður lagður fram verður lögð til breyting um skulum við segja hálfan milljarð - það er tala sem ég set fram til bráðabrigða - á fjárhagsáætlun,“ segir Guðríður og skírskotar til kostnaðar við kaup á félagslegum leiguíbúðum og undirbúning að byggingu fjölbýlishúsa. Frekari kostnaður við umræddar blokkir falli til á næstu fjárhagsárum.

Heimilt að leggja fram viðauka

„Samhliða leggjum við fram greinargerð um það hvernig mæta á auknum útgjöldum. Það er heimild í lögum til að leggja fram viðauka með fjárhagsáætlun. Það má gera ef sveitarfélagið gerir grein fyrir því hvernig þeim útgjöldum verði mætt með tekjum. Það er engin ástæða til þess að gera það fyrr en með vorinu.  Þá erum við væntanlega komin af stað í það verkefni að þurfa að fara að setja inn fjármagn í frekari  íbúðakaup og hugsanlega fjármagn til að hefja undirbúning að byggingu þessara fjölbýlishúsa.

Þegar fjármálareglurnar voru settar 2012 höfðu sveitarfélögin tíu ár til þess að ná viðmiðunum um að koma skuldum niður fyrir 150% af tekjum. Sem þýðir að það þarf að ná þessu markmiði fyrir árið 2022. Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætluninni sem var samþykkt í desember að við komumst í þetta skuldahlutfall 2017. Þannig að ef umrætt verkefni hefði áhrif á áætlanir um skuldahlutfallið yrði það alltaf innan lögbundins ramma, þessa tíu ára ramma.“

- Eruð þið ekki að draga í land með þessu? Það mátti skilja á Gunnari Birgissyni að það ætti að fara í þetta strax.

„Það á að fara í þetta strax. Það eru allir sammála um það. Þótt við myndum ákveða að kaupa 40 íbúðir strax á morgun yrðu þær ekki til. Það er ekki svo mikið framboð af smærri íbúðum í bænum að þetta tekur tíma. Svo rýkur maður ekki í að kaupa íbúðir sama hvað þær kosta.“

Samstaða um að greiða niður skuldir


- Hvað með það sjónarmið að það eigi frekar að nota féð til að greiða niður skuldir og treysta þannig fjárhag sveitarfélagsins?

„Það hefur verið pólitísk samstaða um að greiða niður skuldir bæjarins eins og kostur er og það erum við að gera.  Eins og ég sagði þá erum við að fjarmagna þetta verkefni með lóðasölu, við munum áfram greiða niður skuldir eins og til stóð, kannski örlítið hægar en ella.

Við metum hins vegar stöðuna þannig að það hafi skapast neyðarástand á markaði, sem verður að bregðast við nú þegar, tilgangurinn helgar meðalið og engar kollsteypur munu eiga sér stað í rekstri bæjarins þrátt fyrir þetta þjóðþrifamál,“ segir Guðríður.

Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert