„Ég hef ekki látið neinum í té upplýsingar um að umræddir flokksmenn hafi skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við Margréti Friðriksdóttur og veit ekki hvaðan þær eru komnar,“ segir Bragi Michaelson, formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, vegna yfirlýsingar stuðningsmanna Margrétar.
Eins og greint var frá á mbl.is í morgun lýstu nokkrir stuðningsmenn Margrétar því yfir að Bragi væri ábyrgur fyrir því að nöfnum meðmælenda Margrétar Friðriksdóttur hafi verið lekið í DV. „Hér er um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða sem formaður kjörnefndar, Bragi Michaelson, er ábyrgur fyrir enda tók hann persónulega við framboðsbréfum.“
Bragi hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Hann segir meðal annars að þegar menn skrifi undir stuðningsyfirlýsingu við frambjóðanda til prófkjörs sé um að ræða opinbera stuðningsyfirlýsingu en ekki leyndarmál eða trúnaðarmál. „Engin ákvæði eru í reglum Sjálfstæðisflokksins um að meðmælandalistar séu trúnaðarupplýsingar Kjörnefnd þarf t.d. að geta brugðist við ef einn einstaklingur skrifar undir fleiri nöfn en þann fjölda sem kjósa má í prófkjörinu og væri það útilokað ef um trúnaðarupplýsingar væri að ræða. Í þá áratugi sem ég hef komið að framkvæmd prófkjöra í Sjálfstæðisflokknum hef ég aldrei orðið þess var að neinum dytti í hug að þessar opinberu stuðningsyfirlýsingar væru trúnaðarmál.“
Þá segir hann venju að listarnir gangi milli manna sem skrifa undir og sjá um leið hverjir séu áður búnir að skrifa undir listann. „Þegar framboðum er skilað inn með tilskildum stuðningsyfirlýsingum er það yfirleitt gert á auglýstum tíma þegar framboðsfrestur rennur út og geta þá frambjóðendur jafnt og aðrir flokksmenn séð hverjir hafa skilað inn framboðum og hverjir hafa ritað undir stuðningsyfirlýsingar.“
Hann segist því hafna alfarið þeim ásökunum sem fram koma í yfirlýsingu stuðningsmanna Margrétar. „Þetta hefði ég getað upplýst viðkomandi um ef þau hefðu látið svo lítið að spyrja mig um þetta áður en þau birtu ásakanir sínar opinberlega.“