Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi segir að skóla- og fjölskyldumál séu í öndvegi en flokkurinn hyggst tvöfalda íþrótta- og tómstundastyrkinn að loknum kosningum, sem þýðir að styrkurinn fer úr 27.000 kr. í 54.000 kr. Þá munu öll börn í 5.-10. bekk í grunnskólum bæjarins fá iPad sem ætlað er að gera bæði námið og kennsluna fjölbreyttari.
Ármann Kr. Ólafsson, oddviti flokksins, leggur áherslu á traustan og góðan rekstur og að Kópavogsbúum líði vel og njóti góðrar þjónustu óháð efnahag.
mbl.is mun fram að kosningum birta stutt viðtöl við oddvita framboða í stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Spurningarnar eru einfaldar og fáar: Hvað er brýnt að ganga í strax að loknum kosningum – og um hvað snúast kosningarnar að þessu sinni? Þá fengu frambjóðendur að velja sér stað sem þeir útskýra af hverju varð fyrir valinu.
Ármann kaus að hitta okkur við Kópavogsvöll.