Helsta stefnumál Framsóknarflokksins í Kópavogi er að koma á fót sérstökum frístundakortum fyrir ungt fólk og eldri borgara í bænum. Kortið verði að upphæð 40.000 kr. fyrir ungt fólk en 20.000 kr. fyrir eldri borgara.
Birkir Jón Jónsson, oddviti flokksins, segir kosningarnar snúast um að traustur meirihluti verði áfram við völd í bænum að afloknum kosningum. Fólk geti treyst Framsóknarflokknum vel til góðra verka.
mbl.is mun fram að kosningum birta stutt viðtöl við oddvita framboða í stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Spurningarnar eru einfaldar og fáar: Hvað er brýnt að ganga í strax að loknum kosningum – og um hvað snúast kosningarnar að þessu sinni? Þá fengu frambjóðendur að velja sér stað sem þeir útskýra af hverju varð fyrir valinu.
Birkir kaus að hitta okkur á Víghól á Digraneshálsi.