Samfylkingin í Garðabæ leggur áherslu á barnafjölskyldur í sveitarstjórnarkosningunum. Þrátt fyrir að Garðabær státi sig af lágu útsvari þá eru gjöld sem eru lögð á barnafjölskyldur með því hæsta sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt vill flokkurinn stytta biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Steinþór Einarsson, oddviti flokksins, segir að kosningarnar snúist um um þá þjónustu sem verið sé að veita bæjarbúum. Hún sé góð en há þjónustugjöld, m.a. vegna leikskóla og tómstundaheimila, sé óviðunandi.
mbl.is mun fram að kosningum birta stutt viðtöl við oddvita framboða í stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Spurningarnar eru einfaldar og fáar: Hvað er brýnt að ganga í strax að loknum kosningum – og um hvað snúast kosningarnar að þessu sinni? Þá fengu frambjóðendur að velja sér stað sem þeir útskýra af hverju varð fyrir valinu.
Steinþór kaus að hitta okkur á Álftanesi.