Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næstbesta flokksins í Kópavogi, segir ekki miklar breytingar á líðan sinni, þó að síðustu tölur bendi til þess að hann nái ekki endurkjöri í bæjarstjórn Kópavogs. Hann sé kominn með góðan efnivið í bók og uppistand.
„Ég var eiginlega hættur við að bjóða mig fram á ný, en svo ákváðum við um mánaðamótin að reyna,“ segir Hjálmar, en hann er sáttur við að hafa boðið upp á þennan valmöguleika. Hjálmar segir að lítið framboð hafi ekki haft sömu möguleika og stóru flokksmaskínurnar til þess að heyja kosningabaráttu, og vísar hann þar einkum til Sjálfstæðisflokksins.
Hjálmar er landsþekktur gamanleikari, hefur hann fengið einhvern góðan efnivið á síðustu fjórum árum? „Ég er kominn með efni í mjög góða bók, sem verður væntanlega jólabókin næst, og efni í uppistandstúr á höfuðborgarsvæðinu í haust,“ segir Hjálmar en titill bókarinnar yrði þá „Sagan öll í Kópavogi“.