Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hyggst ekki leita eftir því að verða næsti forseti Íslands. Baldur greindi frá þessu á Facebook síðu sinni fyrr í dag í tilefni fréttar Vísis um niðurstöðu nýrrar könnunar Gallup. Þar kemur fram að rúmur meirihluti aðspurðra voru jákvæðir fyrir hugmyndinni um að Baldur og eiginmann hans, Felix Bergson á myndu setjast að á Bessastöðum.
Mbl.is sagði frá könnuninni í síðasta mánuði. Þar voru þátttakendur spurðir hvort þeir væru jákvæðir eða neikvæðir gagnvart því að Baldur yrði næsti forseti Íslands. Gátu þátttakendur hakað við mjög eða frekar jákvæður eða neikvæður auk þess sem þeir geta valið um að svara ekki eða svara með „veit ekki“ eða þá jafnvel „Veit ekki hver dr. Baldur Þórhallsson er.“
Í samtali við mbl.is þá sagðist Baldur ekki vera á leið í framboð. „Ég kann svo vel við starf mitt hérna hjá Háskóla Íslands,“ sagði hann meðal annars.
Á Facebook í dag ítrekar hann sín fyrri orð. Segir hann þá Felix þakkláta fyrir hlý orð og hvatningu til dáða.
„Við höfum ágætis útsýni yfir á Bessastaði héðan af sjávarsíðunni í Vesturbænum og getum vel fylgst með leik og störfum Bessastaðabænda. Það er fróðleg og skemmtileg yfirsýn fyrir leikara og stjórnmálafræðing. Við hyggjumst ekki leitast eftir því að flytja yfir Skerjafjörðinn. Við kunnum einstaklega vel við okkur í núverandi störfum við Háskóla Íslands og RÚV,“ skrifar Baldur á Facebook. Nefnir Baldur að í dag séu 20 ár síðan að hann og Felix hittust fyrst.
„Við gátum þá ekki einu sinni skráð okkur í sambúð og börnunum okkar voru ekki tryggð full mannréttindi. Við tók áralöng barátta fjölmargra einstaklinga út um allt land sem skilað hefur góðum árangri. Okkur datt ekki einu sinni í hug að samkynhneigt part ætti möguleika á því að setjast að á Bessastöðum,“ skrifar Baldur og bætir við að það hafi þótt stórsigur fyrir mannréttindabaráttuna þegar þáverandi forseti Vigdís Finnbogadóttir kom og fagnaði með þeim þegar að lögin um staðfesta samvist tóku gildi sumarið 1996.
„Nú eru nýir og breyttir tímar. Þeim ber að fagna sem og kröftugum mannréttindayfirlýsingum þjóðarinnar sem birtast í skoðanakönnun eins og þessari. - Við endurtökum þakkir okkar fyrir hlý orð og hvatningu og hvetjum kraftmikla einstaklinga til að stíga fram og bjóða sig fram til embættisins.“
Að gefnu tilefni langar okkur Felix að þakka góðu fólki fyrir hlý orð og hvatningu til dáða. Við höfum ágætis útsýni...
Posted by Baldur Thorhallsson on Monday, February 15, 2016