„Ég er búinn að vera bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 10 ár og hef enn brennandi metnað fyrir því sem ég er að gera hér. En það er alveg ljóst að ég verð ekki bæjarstjóri hér að eilífu. En hvað við tekur að því loknu hef ég ekki tekið neina ákvörðun um,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum aðspurður hvort hann muni gefa kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosninganna í haust.
„Ég hef ekkert verið að máta mig inn í þessa stöðu. En um helgina er kjördæmaráð. í Suðurkjördæmi þar sem verður ákveðið hvaða leið verður farin við að ganga frá lista. Það er kannski í kjölfarið á því sem fólk þarf að taka ákvörðun um það hvort það gefi kost á sér eða ekki.“
Elliði á sæti í kjördæmaráði Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Aðspurður hvort hann hafi skoðun á því hvaða leið sé farin við uppröðun á lista, prófkjör eða uppstilling, segist hann alltaf hafa verið talsmaður prófkjörsleiðarinnar.
„Ég hef alltaf verið talsmaður þess að farin sé prófkjörsleiðin. Hún hefur ákveðna kosti og ákveðna galla. En hún er það næsta sem við komumst lýðræðislegum aðferðum við að setja upp lista. Gallinn er sá að prófkjör hefur oft ekki verið besta leiðin til endurnýjunar,“ segir Elliði.