Guðni missir fylgi

Afstaða þeirra fjögurra frambjóðenda til forseta sem mests fylgis njóta …
Afstaða þeirra fjögurra frambjóðenda til forseta sem mests fylgis njóta samkvæmt skoðanakönnunum til ESB er talsvert mismunandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðni Th. Jóhannesson nýtur stuðnings 54,8% aðspurðra í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið á fylgi við frambjóðendur til embættis forseta Íslands. Davíð Oddsson nýtur stuðnings 19,7% aðspurðra, Andri Snær Magnason, 12,3% og Halla Tómasdóttir 9,5%. Aðrir frambjóðendur mælast með undir 2% fylgi.

Halla Tómasdóttir bætir við sig mestu fylgi frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar sem birtist 14. maí. Þá mældist hún með 1,5% fylgi og hefur því bætt við sig um 8 prósentustigum miðað við síðustu könnun. Guðni Th. Jóhannesson tapar hins vegar mestu eða rúmum tólf prósentustigum, en hann mældist með um 67,1% fylgi í könnuninni sem Félagsvísindastofnun gerði 12. og 13. maí sl. Stuðningur við Andra Snæ Magnason eykst um 4,5 prósentustig og fylgi Davíðs Oddssonar hefur aukist um 2,3 prósentustig frá seinustu könnun.

Könnunin var gerð 1. og 2. júní og náði til 2.000 manns í netpanel Félagsvísindastofnunar, sem valdir voru með handahófskenndu úrtaki fólks yfir 18 ára aldri á landinu öllu. Alls svöruðu 893 könnuninni og er brúttó svarhlutfallið því 45%.

Ítarlega umfjöllun um forsetakosningarnar, fylgismælingar og viðtöl við frambjóðendur er að finna í Morgunblaðinu í dag.
 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert