Guðni er yngsti forseti Íslandssögunnar

Heima hjá nýkjörnum forseta Guðna Th. snemma morguns eftir kjör …
Heima hjá nýkjörnum forseta Guðna Th. snemma morguns eftir kjör hans. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson á 48 ára afmæli í dag og verður því yngsti forseti landsins þegar hann tekur við embætti. Vigdís Finnbogadóttir var næstyngst, 50 ára.

Þetta hefur Jónas Ragnarsson reiknað út, ásamt annarri áhugaverðri tölfræði um embætti forseta, og birt á facebooksíðu sinni.

„Fylgi Guðna umfram þann sem var í öðru sæti var 11,2% sem er svipað því sem var þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kosinn fyrir tuttugu árum, 11,9%. Hins vegar voru yfirburðir Kristjáns Eldjárn árið 1968 mun meiri eða 31,2%. Minnsti munurinn var milli Vigdísar og Guðlaugs Þorvaldssonar árið 1980 eða 1,5%,“ skrifar Jónas.

Í grein sinni fyrir Morgunblaðið þann 25. febrúar tók Jónas fyrir spurninguna: „Hvenær er best að tilkynna framboð til forseta Íslands?“

Rifjaði hann þá m.a. upp að í kosningunum 1952, 1968 og 1980 sigraði yngsti frambjóðandinn en sá næstelsti árið 1996. Í forsetakosningunum 1952 var meðalaldur frambjóðenda rúm 66 ár en rúm 48 ár í kosningunum 1996.

„Kristján var fyrstur til að tilkynna framboð 1968, Vigdís síðust 1980 en Ólafur Ragnar þriðji af fimm árið 1996. Þeir sem sigruðu í þessum fernum forsetakosningum sem hér hefur verið fjallað um buðu sig fram frá 1. febrúar til 9. maí,“ skrifaði Jónas á sínum tíma og dregur fram áhugaverðar tölur í því samhengi í facebookfærslu sinni í dag:

„Guðni tilkynnti framboð sitt 5. maí, eða 51 degi fyrir kosningarnar 25. júní. Það er nákvæmlega jafn langur tími eins og þegar Ásgeir Ásgeirsson bauð sig fram 9. maí 1952 og kosið var 29. júní. Þennan dag, 5. maí 2016, varð Eliza Jean Reid, eiginkona Guðna, 40 ára.“

Segja má að Guðni hafi þannig rammað kosningabaráttu sína inn með afmælisdögum, sínum og eiginkonu sinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert