„Ég er öflug kona og fersk, og þori alveg að standa á móti kerfinu,“ segir Hildur Þórðardóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, í samtali við mbl.is og kveðst sátt við sitt framlag í kosningabaráttunni. „Ég fór af stað með ákveðna hugsjón og ákveðinn vilja til að breyta samfélaginu og mér hefur tekist það alla vega að vekja fólk til umhugsunar á þessu ferli,“ segir Hildur. „Ég mun halda áfram, ég er bara rétt að byrja.“
Hún segir niðurstöður kosninganna vera í takt við þroska þjóðarinnar en vonar að Guðni verði þjóðinni til heilla og sjái sóma sinn í því að sitja ekki í 20 ár í embætti. Hildur útilokar ekki að hún gefi kost á sér í framtíðinni en telur óvíst hvort þjóðin verði tilbúin eftir fjögur, átta eða tólf ár, eftir því hvenær Guðna þóknast að hætta.
Hún segir lítið fylgi við sig í kosningunum ekki vera vonbrigði, heldur sé hún þakklát þeim sem þorðu að kjósa sig. „Þetta er fólk með stórt hjarta og sem skilur hvað ég er að segja,“ segir Hildur.
Nú ætlar Hildur að gefa sér tíma til að hugsa hvernig hún vill halda áfram en hún vill taka fjölmiðlaumræðuna og stjórnarskrármálið lengra. Hún vill kanna betur hlutverk fjölmiðla og hvernig þeim tekst til að sinna því, hvort það sé til heilla fólkinu í landinu eða einstaka hagsmunaaðilum. „Við bara gerum þetta saman á uppbyggilegan máta,“ segir Hildur en hún kveðst ekki vilja vega að fjölmiðlum með þessu, heldur ganga úr skugga um að þeir sinni sínu rétta hlutverki en séu ekki að „skjóta hvern þann sem rís upp úr meðalmennskunni í kaf.“