Guðni Th. Jóhannesson hefur verið kjörinn sjötti forseti Íslands eins og flestar spár sögðu fyrir um þótt munurinn hafi verið minni á lokametrunum en útlit var fyrir í fyrstu. Þegar mest var mældist Guðni með tæplega 70% fylgi í skoðanakönnunum og því mætti ætla að þjóðin þekkti hann inn og út, en engu að síður er hollt að rifja upp nákvæmlega hver það er sem Íslendingar kusu sér sem sinn næsta forseta.
Guðni fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968 og er sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og íþróttafulltrúa. Guðni á tvo bræður, þá Patrek, íþróttafræðing og fyrrverandi landsliðsmann í handbolta, og Jóhannes kerfisfræðing. Faðir þeirra lést árið 1983, 42 ára að aldri, úr krabbameini og sá móðir þeirra eftirleiðis að fullu um uppeldi þeirra bræðra.
Líkt og Patrekur stundaði Guðni handbolta á uppvaxtarárunum í Garðabænum en faðir þeirra var meðal annars handboltaþjálfari. Föðuramma og -afi Guðna voru frá Patreksfirði en þaðan er nafn Patreks komið. Þess utan voru þeir bræður skírðir í kaþólskum sið en Guðni sagði í samtali við Morgunblaðið 2009 að foreldrum þeirra hefði líkað þetta dýrlinganafn. Guðni yfirgaf hins vegar kaþólsku kirkjuna í kjölfar frétta af glæpum ýmissa kaþólskra presta.
Guðni stendur í dag utan trúfélaga en sagði aðspurður í samtali við fréttavefinn Hringbraut fyrr á þessu ári að hann tryði á almætti. Þar sagði hann enn fremur: „Líður vel með mína barnatrú og mín trúarjátning er ekki lengur „credo in unum deum“ heldur mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna: „Hver maður er borinn frjáls, jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku og ber þeim að breyta bróðurlega hver við annan.““
Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1987 og BA-gráðu í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla í Englandi 1991. Næsta árið stundaði hann nám í þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi en lauk ekki prófi. Á árunum 1993–1994 stundaði hann nám í rússnesku við Háskóla Íslands. Árið 1997 útskrifaðist Guðni með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ. Tveimur árum síðar lauk hann MSt-gráðu í sögu frá Oxford-háskóla á Englandi.
Guðni var þar með ekki hættur námi en 2003 lauk hann doktorsnámi í sagnfræði frá University of London. Þau Guðni og Eliza Reid, eiginkona hans, kynntust árið 1998 þegar þau voru bæði við nám við Oxford-háskóla, en hún er frá Kanada. Þau hafa verið búsett á Íslandi frá árinu 2003 og rekur Eliza eigið ráðgjafarfyrirtæki. Sjálf er Eliza er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Toronto-háskóla í Kanada og MSt-gráðu í nútímasögu frá Oxford-háskóla.
Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá Guðna og Elizu fagna eftir að þátttöku hans í sjónvarpssal RÚV lauk í gær.
Guðni og Eliza búa við Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi og eiga saman fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Börnin eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á sömuleiðis dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu. Rut stundar í dag nám við Háskóla Íslands.
Guðni hefur meðal annars starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Í dag starfar hann sem dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Eftir hann liggja mikil ritverk á sviði sagnfræði, meðal annars um þorskastríðin og forsetaembættið. Hann ritaði meðal annars ævisögu Gunnars Thoroddsens, fyrrverandi forsætisráðherra, og bók um embættistíð Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta Íslands.
Guðni var fyrst orðaður við framboð til forseta skömmu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti í áramótaávarpi sínu að hann hygðist ekki bjóða sig fram á nýjan leik. Guðni hefur þó sagt að hann hafi ekki getað hugsað sér framboð á þeim tímapunkti.
Það var síðan í kjölfar framkomu Guðna í aukafréttatímum RÚV vegna Wintris-málsins og Panamaskjalanna sem hreyfing komst á áskoranir í hans garð að nýju. Mikill fjöldi fólks skoraði á Guðna að bjóða sig fram, í gegnum Facebook, og í lok apríl mældist hann með 24,6% fylgi þrátt fyrir að hafa ekki enn formlega lýst yfir framboði.
Nokkur bið var frá því að fyrst fór að heyrast hátt í stuðningsmönnum hans og þar til hann lýsti yfir framboði. Þegar Ólafur Ragnar hætti við að hætta nokkrum dögum áður en fyrrnefnd könnun var gerð skrifaði Guðni á Facebook-síðu sína: „Veit ég var búinn að lofa að koma undan feldi í sumarbyrjun en það fyrsta sem ég sá þegar ég gægðist út var Ólafur Ragnar Grímsson.“
Svo fór þó að Ólafur hætti við að hætta við að hætta og 5. maí bauð Guðni sig formlega fram til forseta Íslands og nú rúmum sjö vikum síðar hefur hann náð kjöri.