Segir Guðna geta skapað sátt um embættið

Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vil byrja á því að óska Guðna innilega til hamingju og óska honum velfarnaðar í starfi. Ég held að hann verði góður forseti, hann er fróður um sögu landsins og það mun nýtast honum vel,“ segir Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, um úrslit forsetakosninganna í gær.

„Ég hef trú á því að hann geti skapað frið og sátt um embættið, við þurfum á því að halda,“ segir Oddný. Hún segist ekki þekkja Guðna persónulega en „ég hlakka til að kynnast honum betur,“ segir Oddný og bætir við að henni þyki það mjög skemmtilegt að börn muni eiga heima aftur á Bessastöðum þegar Guðni Th. Jóhannesson, verðandi forseti, flytur inn með fjölskyldunni.

Oddný óskar einnig Höllu Tómasdóttur til hamingju með góðan árangur á lokasprettinum. „Mér fannst gaman hvað Halla kom vel út, hvernig hún blómstraði á lokasprettinum,“ segir Oddný. Hún segir kjörsókn hafa verið ásættanlega í gær. 

„Kjörsóknin var ekki góð í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Það er mikilvægt fyrir lýðræðið að nýta kosningaréttinn,“ segir Oddný sem er stödd um þessar mundir á Akureyri í heimsókn hjá systur sinni. Hún vakti fram eftir í nótt til þess að fylgjast með úrslitunum en segist aðspurð ekki hafa tekið þátt í neinni kosningavöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert