Óhefðbundið prófkjör Pírata

Mynd/Vefsíða Pírata

Prófkjör Pírata á höfuðborgarsvæðinu og í Suðurkjördæmi standa nú yfir. Prófkjöri í Norðausturkjördæmi lauk fyrir þó nokkru og það síðasta, í Norðvesturkjördæmi, hefst á mánudag.

Píratar hafa annan hátt á en hefðbundið er hjá öðrum stjórnmálaflokkum þegar kemur að framkvæmd prófkjöranna. Prófkjör Pírata fara einungis fram á netinu og ekki er kosið sérstaklega milli kjördæma á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir þeir kosningarétt sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur. Lög Pírata kveða ekki á um nauðsyn þess að hafa verið skráður í flokkinn í 30 daga til að geta kosið í prófkjörum en Björn Leví Gunnarsson, varaþingmaður Pírata, segir kjördæmaráðin ráða því hver þau tímamörk séu. Þau skilgreini hvenær kosningar hefjist formlega.

Fjöldi kosningabærra eykst daglega

30 daga reglan sem kjördæmaráðin kusu að setja, veldur því að fleiri öðlast atkvæðarétt í prófkjöri Pírata með hverjum deginum sem líður. Þannig hafa fleiri kosningarétt í dag en í gær, fleiri hafa kosningarétt á morgun en í dag o.s.frv. Ekki fengust upplýsingar um daglega fjölgun Pírata með kosningarétt þegar eftir þeim var leitað.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 105 í framboði og í 22 í Suðurkjördæmi. Þessi prófkjör hófust 2. ágúst og standa til 12. ágúst.

Á höfuðborgarsvæðinu gengur prófkjörið þannig fyrir sig að efsti maður prófkjörsins velur síðan sæti á lista einhvers kjördæma höfuðborgarsvæðisins; Reykjavíkur norður, Reykjavíkur suður eða Suðvesturkjördæmis. Næsti maður velur sér því næst lista og sæti, síðan þriðji og svo koll af kolli, þar til allir listar eru fullmannaðir með samtals 70 einstaklingum.

Í Norðvesturkjördæmi eru 17 í framboði. Prófkjör þar hefst 8. ágúst og stendur til 14. ágúst.

Í Norðausturkjördæmi er prófkjöri lokið, en það hófst 20. júní og stóð til 27. júní.

Frambjóðendum forgangsraðað

Þegar kosningabærir Píratar raða upp frambjóðendum í prófkjörinu, birtast þeir kjósendum í handahófskenndri röð. Raðað er á lista fyrir þingkosningar með svokallaðri Schulze-aðferð, sem felst í því að hver sá sem greiðir atkvæði, forgangsraðar í fyrsta sæti, annað sæti, þriðja sæti o.sfrv. Því meira sem kjósendur forgangsraða, því betri útkoma fæst úr talningunni.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu með Schulze-aðferð leiðir til þess að sá sem oftast er valinn fram yfir aðra frambjóðendur er líklegastur til að lenda í fyrsta sæti. Því er raðað eftir fylgi hvers frambjóðanda gagnvart öðrum frambjóðendum.

Sé einhverjum frambjóðendum ekki raðað í prófkjörinu, lenda þeir sjálfkrafa saman í neðsta sæti. Sem dæmi: Séu 100 í framboði og kjósandi raðar einungis þremur; Jóni í fyrsta sæti, Gunnu í annað sæti og Sigrúnu í þriðja sæti, lenda hinir 97 frambjóðendurnir saman í fjórða sæti. Eru þeir þá jafnir innbyrðis en tapa fyrir Jóni, Gunnu og Sigrúnu.

Fari svo að frambjóðendur verða jafnir, hvar sem það er á lista, verður skorið úr um sætaskipan með hlutkesti. Ef svo ólíklega vill til að allir frambjóðendur verði jafnir, verður röðun listans því öll handahófskennd.

Með þessu fyrirkomulagi er því vel mögulegt Jón Pírati lendi ofar á lista en nokkur maður setti hann í prófkjöri. Jón gæti til dæmis lent í þriðja sæti hjá öllum í prófkjörinu á höfuðborgarsvæðinu en hafnað efstur í því, sigri hann alla aðra frambjóðendur innbyrðis. Getur Jón þá valið sér efsta sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna eða Suðvesturkjördæmi – eða það neðsta, það fer allt eftir því hvað Jón vill.

Smáforrit aðstoðar kjósendur

Á vefsíðu Pírata má finna smáforrit sem aðstoðar Pírata við að komast að því með hvaða frambjóðendum þeir deila helst skoðunum.

Frambjóðendum hefur verið boðið að svara hversu sammála eða ósammála þeir séu fullyrðingum og hversu mikilvægar þær telji þær vera. Aðrir Píratar geta síðan svarað sömu fullyrðingum og metið mikilvægi þeirra og borið saman niðurstöður sínar við niðurstöður frambjóðenda.

Einungis svör frambjóðenda í Suðurkjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu eru í smáforritinu. 81 frambjóðandi á höfuðborgarsvæðinu hefur svarað og 15 í Suðurkjördæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert