Flokksþing ákveðið í kvöld?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Styrmir Kári

Hægt er að taka ákvörðun um flokksþing Framsóknarflokksins með tvennum hætti. Annars vegar samkvæmt ákvörðun miðstjórnar sem er hin hefðbunda leið og hins vegar ef meirihluti kjördæmisþinga flokksins fer fram á það.

„Framsóknarflokkurinn heldur reglulegt flokksþing sem haustfundur miðstjórnar boðar til, eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs. Skylt er að boða til flokksþings ef meirihluti kjördæmisþinga óskar.“

Þetta kemur fram í lögum Framsóknarflokksins. Tvö kjördæmisþing Framsóknarflokksins hafa ályktað að flokksþing skuli fara fram í aðdraganda boðaðra þingkosningar í haust, kjördæmisþing flokksins í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. 

Slík tillaga var hins vegar felld á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi sem er kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Fari fram flokksþing verður meðal annars kosið um forystu flokksins.

Kjördæmisþing flokksins í Suðvesturkjördæmi fer fram í kvöld og er líklegt að þar verði lögð fram tillaga um að flokksþing fari fram fyrir boðaðar haustkosningar. Verði slík tillaga samþykkt hafa þrjú kjördæmisþing farið fram á flokksþing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert