Brynjar Níelsson vill þriðja sætið

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir þriðja sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar. Hann greinir frá þessu á Facebooks-síðu sinni. 

„Ég legg áherslu á áframhaldandi aðgerðir til að treysta efnhagslegan stöðugleika með aðhaldi í ríkisfjármálum. Forsenda velferðar allra er öflugt atvinnulíf og stöðugleiki. Og forsenda öflugs atvinnulífs er trú á einstaklinginn og sköpuð sé eðlileg umgjörð fyrir hann til athafna og sköpunar. Ég er trúr grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins og tel að við þurfum að leita oftar lausna þar í glímu við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

Ég vonast eftir stuðningi sjálfstæðismanna í prófkjörinu. Ég vil jafnframt skora á alla sjálfstæðismenn að taka þátt í prófkjörinu og raða upp fjölbreyttum og sigurstranglegum lista í Rykjavík enda úr mörgum öflugum frambjóðendum að velja. Í Reykjavík eru mikil sóknarfæri fyrir okkur sjálfstæðismenn. Góð þátttaka getur ráðið miklu um framhaldið og möguleika á góðri kosningu 29. október,“ segir í færslu Brynjars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert