„Nú þarf maður bara að skoða hvað maður vill gera með þessa niðurstöðu,“ segir Þórður Guðsteinn Pétursson, sem hafnaði í efsta sæti í síðasta prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi, en framboðslistinn var felldur í dag.
Frétt mbl.is: Felldu framboðslista í NV-kjördæmi
Meðlimir Pírata felldu listann í rafrænni kosningu með um 56% greiddra atkvæða, og mun því nýtt prófkjör fara fram hjá flokknum. Kjördæmisráð Pírata í Norðvesturkjördæmi fundar í kvöld og tekur ákvörðun um hvenær nýtt prófkjör fer fram, en allir Píratar á landinu munu taka þátt í því.
Þórður var sakaður um að hafa smalað kjósendum í prófkjörsbaráttunni. Þórður braut þó ekki gegn prófkjörsreglum kjördæmaráðs Pírata á Norðvesturlandi þar sem reglan, sem bannar kosningasmölun, tók ekki gildi fyrr en eftir að smölunin átti sér stað.
Þórður segir alla á listanum vera í þeirri stöðu að þurfa að endurskoða sín mál. „Af sautján manna hópi sem sóttust eftir því að vera á lista fyrir Pírata mun koma í ljós hve margir verða eftir,“ segir hann. „Nú þarf hver og einn að gera það upp við sig.“
Þá segir hann gott fólk hafa raðast á listann frá víðu svæði í Norðvesturkjördæmi. „Svo var það fólk í Norðvesturkjördæmi sem kaus listann,“ segir hann, en ljóst er að breyting verður á því nú.
Þórður vill ekki tjá sig mikið um málið að svo stöddu en segist hafa viljað ganga í „flokk með lýðræði og þar sem hægt er að treysta gildunum“. Hann vill ekki tjá sig um það hvort Píratar séu lengur sá flokkur fyrir sig.
Loks segist hann ætla á Ljósanótt um helgina og hitta félaga sína af listanum í Suðurkjördæmi. „Ég mun þakka þeim stuðninginn sem þeir hafa sýnt mér í gegnum þetta síðustu vikur.“